Innan landamæra ESB er þjóðaröryggi okkar sinnt

Share Button

Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, er einn reyndasti diplómat landsins og á að baki farsælan feril við að gæta hagsmuna Íslands hjá erlendum stjórþjóðum og alþjóðlegum stofnunum á þeim tímum þegar enginn vafi lék á því í huga meirihluta Íslendinga að besta leiðin til þess að tryggja farsæld og öryggi lands og þjóðar væri sú að eiga náið samstarf við aðrar vestrænar þjóðir.

Einar ritar grein í Fréttablaðið í dag, víkur að og ræðir þá framtíðarmöguleika sem tengjast ESB-aðild Íslands út frá öryggis- og viðskiptahagsmunum.

„Spurt er af hverju aðild að Evrópusambandinu er hagsmunamál Íslands. Svarið er meðal annars að með því að vera innan landamæra sambandsins er sinnt þjóðaröryggi okkar,“ skrifar Einar.

Hann skrifar einnig:

Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra

Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra

Afnám haftanna verður eitt helsta samningsatriðið en ESB og Evrópski seðlabankinn hafa þegar gefið ádrátt um frumkvæði um stofnun vinnuhóps um afnám hafta. Yrði þá vonandi fundin leið til að rjúfa þá hættustöðu, sem Ísland hefur ratað í vegna kröfuhafa í slitabú föllnu bankanna. Með því að forðast að þvinga föllnu bankana í gjaldþrot gegn vilja kröfuhafa yrði komist hjá erfiðum og langdrægum málaferlum samfara einangrun frá fjármálamörkuðum, sem sífellt fátækari Argentína hefur mátt búa við af sömu ástæðum.

Afnám gjaldeyrishafta er liður í aðild að Myntbandalaginu og upptöku evru sem felur í sér gríðarlegan velferðarábata fyrir Ísland. Á árunum 1989 til 2001 studdist Ísland við fastgengi og uppfyllti Maastricht-skilyrðin. Sú staðreynd og reynsla átta smáríkja sem tekið hafa upp evru með aðild að ERM II, benda til þess að Ísland ætti að geta gengið í gegnum það ferli á lágmarkstíma eða tveimur til þremur árum, eftir að höftin hafa verið afnumin og jafnvægisgengi fengið. Það ríkir einhver óskiljanleg tregða hjá stjórnvöldum að þjóðin fái vitneskju um hvað býr á bak við endurteknar yfirlýsingar Evrópuleiðtoga að við séum velkomnir í ESB. Allt tal um aðrar leiðir en trygga stöðu í Evrópu með aðildarsamningi, er fullkomlega út í bláinn.

En málum er þar með ekki lokið varðandi þá framtíðarmöguleika sem ESB-aðild boðar. Samningar milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um Sáttmálann um viðskipti og fjárfestingar (Transatlantic Trade and Investment Pact – TTIP) hófust árið 2013. Fjórðu samningalotunni er nýlokið. Sem staðfastur umsækjandi hefur Ísland þá stöðu, samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB, að geta fylgst með samningunum; þeir snerta viðskiptahagsmuni okkar, sérstaklega líka vegna mótunar umhverfis fyrir erlenda fjárfesta. TTIP er annar grunnur framtíðar Íslands. Hann nýtur stuðnings öflugustu hagsmunasamtaka austan hafs og vestan.

Evrópubloggið hvetur lesendur til að lesa grein Einars í heild sinni en hana má nálgast hér.

Share Button

Kostaði 750.000 kr. og átta mánaða bið að losa 112 krónur úr höftum

Share Button

Euro_coins_version_IISprotafyrirtækið Clara þurfti að taka á sig 750.000 króna lögfræðikostnað og bíða í marga mánuði til þess að fá undanþágu frá Seðlabanka Íslands til stofna dótturfélag í Bandaríkjunum og millifæra stofnkostnaðinn úr landi. Stofnkostnaðurinn við dótturfélagið var einn bandaríkjadalur eða 112 krónur.

Sporafyrirtækið Skema, gekk í gegnum átta mánaða ferli, sem kostaði eina milljón króna í lögfræðikostnað til þess að fá leyfi Seðlabankans til þess að stofna móðurfélag í Bandaríkjunum og flytja 76,50 bandaríkjadali úr landi. Það eru 8.567 krónur.

Til þess að geta síðan lánað erlendan gjaldmiðil innan samsteypunnar þurfti íslenska dótturfélagið að eiga erlendan gjaldmiðil á íslenskum bankareikningi.

„Vitanlega átti það hann ekki til og þurfti því aftur að sækja um undanþágu til að kaupa 14,5 dali og færa 0,9 dali yfir í erlenda félagið. Það ferli er enn í gangi og ófyrirséð um kostnað þess og tíma,“ skrifar Brynhildur S. Björnsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, á Vísi en þar segir hún sögurnar hér að ofan um þá fyrirhöfn sem íslensk sprotafyrirtæki þurfa að leggja á sig til þess að brjótast úr viðjum gjaldeyrishafta og hasla sér völl á erlendum mörkuðum þar sem þau hafa eðlilegan aðgang að erlendri áhættufjármagni.

Rétt er að hafa í huga – eins og Brynhildur nefnir – að Skema hefur verið tilnefnt á lista yfir athyglisverðustu sprotafyrirtæki heims í tímaritinu Forbes

Sprotafyrirtækið Clara hefur fyrir nokkru síðan verið selt fyrir meira en einn milljarð króna til bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Jive.

„Undanþáguferli sem tekur átta mánuði og kostar sprotafyrirtæki um milljón íslenskra króna getur einfaldlega verið spurning um líf eða dauða slíkra fyrirtækja og þá verðmætasköpun sem á sér þar stað,“ skrifar Brynhildur.

Grein hennar bregður upp sláandi mynd af því umhverfi sem íslensk sprotafyrirtæki – dýrmætustu vaxtarsprotar íslensks atvinnulífs – búa við innan gjaldeyrishaftanna. Framtak þeirra er drepið í dróma í hagkerfi krónu í höftum.

„Vegna haftanna mega íslensk fyrirtæki ekki stofna móður-/dótturfélög erlendis, kaupa/selja hlutafé eða hugverkarétt nema með leyfi Seðlabankans. Þótt leyfið fáist yfirleitt ríkir mikil óvissa um hve langan tíma það tekur, auk þess sem það er alltaf háð erfiðum skilyrðum,“ skrifar Brynhildur. „Umsóknarferli Seðlabankans gerir engan greinarmun á umsóknum út frá eðli eða stærð fyrirtækja – hvað þá um hvers konar upphæðir er að ræða. Þar að auki er ferlið allt of tímafrekt og kostnaðarsamt, bæði fyrir fyrirtækin og þjóðarbúið. Seðlabankinn gefur sér að lágmarki átta vikur í undanþáguferlið en mörg dæmi spanna nokkra mánuði.“

Brynhildur segir að Seðlabankann vant sár­lega „að geta fangað og skilgreint eðli umsókna sprotafyrirtækja þannig að þau falli ekki undir sama ramma og stærri fyrirtæki, sem hafa allt aðrar þarfir en sprotafyrirtæki á sínum fyrstu metrum í verðmætasköpun og hafa brýna þörf fyrir að afla erlendra fjárfesta til að geta stuðlað að alþjóðlegum vexti.“

Stjórnvöld hljóta að taka ábendingar Brynhildar alvarlega, þær sýna hvar nauðsynlegt er að steypa án tafar upp í verstu sprungurnar á gjaldeyrishöftunum sem eru og verða meðan krónan er lögeyrir hér á landi.

Hitt er auðvitað mergurinn málsins að það er dökk framtíð sem bíður sprotafyrirtækja og frumkvöðla að nýrri atvinnustarfsemi í hagkerfi krónunnar. Til að geta nýtt þá möguleika til vaxtar og nýsköpunar sem búa í íslensku hugviti þarf einfaldlega að kasta krónunni og koma íslensku atvinnulífi í alþjóðlegt umhverfi þar sem menn geta stundað frjáls alþjóðleg viðskipti og notað til þess gjaldmiðil sem er gjaldgengur á elrendum mörkuðum og ekki þarf að binda í höft og handstýringu opinberra embættismanna.

Share Button

Af hverju tala þeir ekki skýrt og útiloka afgreiðslu tillögu Gunnars Braga á sumarþingi?

Share Button

photo 5Svo virðist sem í dag hafi fyrst hafist af alvöru meðferð utanríkismálanefndar Aþingis á tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Tillagan var til umræðu á nokkurra klukkustunda löngum fundi nefndarinnar í morgun þar sem nefndin tók á móti gestum.

Áður hafði málið einungis verið rætt stuttlega á tveimur fundum í nefndinni, í samtals um eina klukkustund.

Ráðherrann lagði málið fram á Alþingi þann 21. febrúar og mælti fyrir því 27. febrúar. Fyrri umræðu um málið lauk 13. mars og gekk það þá til utanríkismálanefndar. Frá þeim degi hefur utanríkismálanefnd fundað sjö sinnum, samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis, en umrædd tillaga ráðherrans hefur aðeins verið á dagskrá tveggja af þeim fundum. Annars vegar 18. mars þegar samþykkt var að óska eftir umsögnum um málið en þá var málið í um það bil eina mínútu á dagskrá nefndarinnar. Umsagnarbeiðnir voru sendar út þann 20. mars. Hins vegar þann 25. mars en þá ræddi nefndin málið í 57 mínútur og fékk til sín gestina Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, Högna Kristjánsson, sendiherra, og Sunnu Gunnars Marteinsdóttur, aðstoðarmann utanríkisráðherra.

Frestur til að senda inn umsagnir um málið rann út þann 8. apríl og bárust nefndinni umsagnir frá 167 aðilum, langflestar frá einstaklingum sem lýstu andstöðu við tillöguna. Hið sama gerðu sveitarstjórnir stærstu sveitarfélaga landsins og helstu samtök í atvinnulífinu – önnur en LÍÚ, Landssamband smábátaeigenda og samtök í landbúnaði.

Meðal þeirra gagna sem bárust nefndinni í formi umsagnar var skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um Aðildarviðræður Íslands við ESB.. Auk hennar liggur fyrir nefndinni að fjalla fyrir þinglok um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og um tillögur frá þingmönnum Pírata annars vegar og þingmönnum VG hins vegar um það hvernig standa skuli að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna.

Það er því ljóst að það er ekkert áhlaupaverk sem utanríkismálanefnd á fyrir höndum hvað varðar umfjöllun um Evrópumál og aðildarviðræður Íslands og ESB áður en nefndin getur sent frá sér álit og vísað málinu til annarrar og síðari umræðu á Alþingi. Venju samkvæmt má ætla að fjölmargir gestir yrðu kvaddir á fund nefndarinnar. Og umfjöllun nefndarinnar um málið hefur sem sagt legið niðri frá 25. mars, samkvæmt vef Alþingis, og þar til hún hefst í dag með löngum fundi þar sem gestir koma á fund nefndarinnar til að ræða málið.

Óneitanlega vekja þessar fréttir af dagsverki utanríkismálanefndar nú í dag spurningar í ljósi þeirra yfirlýsinga sem komið hafa síðustu daga frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar, um að þess sé ekki að vænta að tillagan verði afgreidd fyrir þinglok og óvíst sé hvað verði um hana í framtíðinni.

Það vekur undrun að utanríkismálanefnd sé að leggja mikla vinnu í það síðustu daga þingsins að fjalla um mál, sem ætlunin er að afgreiða ekki fyrir þinglok, sem eiga að verða hinn 16. maí, – mál sem alls óljóst er hvað verður um í framtíðinni.

Af umræðum á netinu má ráða að Evrópuandstæðingar innan stjórnarflokkanna hafa væntingar um það að kalla eigi saman sumarþing og nota það til þess að keyra í gegnum aðra umræðu og atkvæðagreiðslu tillögu utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðum.

Ekkert í þeim ummælum sem Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson og aðrir stjórnarliðar hafa látið falla síðustu daga rennir stoðum undir slíkar hugmyndir eða bendir til þess að ríkisstjórnin geti haft slíkar ráðagerðir um störf sumarþingsins á prjónunum.

Það blasir við að túlka orð Bjarna, Birgis og annarra með þeim hætti að stefnt sé að því að tillagan verði látin daga uppi á 143. löggjafarþingi, sem nú situr, þannig að hefja þyrfti meðferð málsins frá byrjunef vilji væri til þess þegar 144. löggjafarþing verður kallað saman í haust. 

En auðvitað væri óvarlegt í ljósi reynslunnar að staldra ekki við. Hér þarf að draga lærdóm af orðum og efndum leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna fyrir alþingiskosningarnar síðasta vor. Þá var málið tekið af dagskrá í kosningabaráttunni með yfirlýsingum þeirra og loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslur á fyrri hluta kjörtímabils um framhald aðildarviðræðna. Þau loforð hafa síðar verið svikin endanlega með þeirri tillögu utanríkisráðherra sem nú er til meðferðar hjá utanríkismálanefnd.

Nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan í lok þessa mánaðar.

Því vakna spurningar: Er rétt að treysta því að túlka eigi yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar og Birgis Ármannssonar um framhald mála á þann hátt sem blasir við að túlka þær.

Er nauðsynlegt að kalla til sérfræðinga í millilínalestri áður en tekin er áhættan á því að mynda sér skoðun á því hvað þessir forystumenn Sjálfstæðisflokksins eiga við í raun og veru?

Er verið að tala málið út af borðinu til þess eins að það þvælist ekki fyirr ríkisstjórnarflokkunum í kosningabaráttunni vegna sveitarstjórnarkosninganna? Hér þarf auðvitað að taka af skarið.

Ríkisstjórnin getur ekki villt á sér heimildir um Evrópumál einu sinni enn á innan við einu ári í aðdraganda kosninga.

Hún þarf að gefa skýrar og ótvíræðar yfirlýsingar án frekari tafa – og áður en Alþingi verður frestað þann 16. maí – um það hvort tillaga utanríkisráðherra um slit á aðildarviðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu eigi að koma til afgreiðslu sumarþingi á sumarþingi eða hvort þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið þýði það – eins og virðist blasa við – að ætlunin sé að málatilbúnaður utanríkisráðherra verði að engu gerður og að við upphaf 144. löggjafarþings í haust standi málið standi líkt og sú tillaga hefði aldrei komið fram.

Meðan ríkisstjórnin eyðir ekki vafa um fyrirætlanir sínar í þessu máli er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort forsvarsmenn hennar séu líklegir til þess að vilja nota – í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna – sama leikkerfið í Evrópumálum og þeir beittu í baráttunni vegna þingkosninganna síðastliðið vor.

 

Share Button

Tillaga Gunnars Braga verður látin daga uppi á Alþingi í vor

Share Button

esb-isl2-300x166Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokkinn, hefur gefið sterklega til kynna í fjölmiðlum í dag að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka verði látin daga uppi í utanríkisnefnd án þess að koma til atkvæða áður en Alþingi verður slitið í vor.

„Mér finnst ólíklegt að málið komi til atkvæðagreiðslu í þessari viku og það er mjög stutt eftir af þinginu,“ sagði Bjarni í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann var spurður hvort þess mætti vænta að tillagan yrði lögð fram á ný þegar þing kemur saman í haust og svaraði:

Það er ekki tímabært að tala neitt um það hvað gerist með þessa tillögu mögulega í framtíðinni. Aðalatriðið er það að hvort sem tillagan verður afgreidd eða ekki þá er ekkert að fara að gerast í ESB-málinu gagnvart Evrópusambandinu vegna þess að við höfum ekki verið í neinum viðræðum, það er búið að leysa upp viðræðunefndina og ríkisstjórnin hefur talað mjög skýrt um það að hún ætlar ekki að ljúka neinum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins lýsir óánægju með þá stöðu sem málið er komið í á bloggsíðu sinni í dag. Björn skrifar:

Markvisst er þjóðin búin undir að þingsályktunartillagan um afturköllun ESB-umsóknarinnar verði ekki afgreidd á þessu þingi. Það er enn eitt sérkennilega atvikið í sögu þessa máls eftir að kjósendur höfnuðu ESB-aðild í þingkosningunum fyrir ári og ríkisstjórn var mynduð til að ljúka umsóknarferlinu sem hófst sumarið 2009. … Núverandi ríkisstjórn hafði ekki burði til að kynna stöðu málsins á þann hátt sem bar … [Ríkisstjórnin] treystir sér ekki til að afgreiða málið vegna ESB-aðildarsinna sem heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllum umsóknar sem varð sjálfdauð.

Share Button

Viðbrögð ráðherra kalla á mætingu á útifundinn á Austurvelli í dag kl. 15

Share Button

Í dag klukkan þrjú hefjast á ný útifundir á Austurvelli til þess að knýja á um efndir kosningaloforða ríkisstjórnarflokkanna um að efna til þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna að Evrópusambandinu.

Undirskriftir þeira 53.555 kjósenda sem skráðu sig á thjod.is til að koma slíkri áskorun á framfæri voru afhentar forseta Alþingis í gær.

Viðbrögð Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, og flutningsmanns þingsályktunartillögunnar um að slíta viðræðunum endanlega og draga aðildarumsókn til baka vöktu mikla athygli í fjölmiðlum í gær en þar lagði hann áherslu á að ríkisstjórnin mundi ekki hvika frá því að slíta aðildarviðræðum og áréttaði að hann vildi að Alþingi samþykkti tillögu sína fyrir þinglok.

Þetta sagði Gunnar Bragi með þessum orðum:

„Ég sjálfur hef ekki trú á að undirskriftalistinn sem slíkur geri það að verkum að tillagan verði dregin til baka. En ég hef alltaf sagt að ef að það er hægt að finna leið til þess að hlusta á þá sem hafa skrifað undir listann eða þá sem hafa tjáð sig um þetta mál, um leið að ná einhvern vegin fram markmiðum stjórnvalda, þá er ég ekkert að útiloka einhverjar breytingar á málum.“

Ráðherrann endurtók síðan en umorðaði hið óljósa niðurlag yfirlýsingarinnar hér að ofan og sagði:

„Ég vil ítreka það að ég er opinn fyrir hugmyndum ef að það er hægt að ná einhverri lendingu sem að gerir það samt að verkum að ríkisstjórnin nær sínu að sjálfsögðu fram, um að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu.“

Þessar yfirlýsingar ráðherrans gefa til kynna að enn sé nauðsynlegt að almenningur fjölmenni til útifundar á Austurvelli í dag til þess að minna ríkisstjórnarflokkana á loforð sín gagnvart kjósendum í landinu. Fundurinn hefst klukkan 15 í dag. Þar verða ræðumenn Svanur Kristjánsson, prófessor, Hallgrímur Helgason, rithöfundur, Katrín Fjeldsted, læknir og fyrrverandi alþingismaður og borgarfulltrúi og Stefán Jón Hafstein, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar.

Hallveig Rúnarsdóttir, sönkona og Guðrún Dalía Salómonsdóttir, píanóleikari, flytja tónlist og einnig tónlistarmaðurinn Hjalti í Múgsefjun sem sér um upphitun áður en ræðumenn taka til máls.

Share Button

Áskorun frá 53.555 kjósendum afhent forseta Alþingis í dag

Share Button

phota4Listar með undirskriftum 53.555 Íslendinga sem undirrituðu áskorun á thjod.is um að staðið verði við loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um að ljúka aðildarviðræðum Íslands við ESB verða afhentar forseta Alþingis og formönnum þingflokkanna við athöfn í Skála Alþingis í dag klukkan 13.

Undirskriftirnar eru frá rúmlega 22% af atkvæðisbæru fólki á kjörskrá. Þær hafa verið samkeyrðar við þjóðskrá til að ganga úr skugga um áreiðanleika þeirra.

Undirskriftarsöfnunin hófst kl. 22. sunnudaginn 23. febrúar en lauk sunnudaginn 27. apríl kl. 22 og stóð því alls í í rétta 63 sólarhringa – einn fyrir hvern þingmann á Alþingi en þangað er áskorun söfnunarinnar beint.

Áskorunin sem fólk undirritaði á thjod.is var svohljóðandi:

Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt: Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Þá er sérstök athygli vakin á að sjöundi samstöðufundur okkar verður kl. 15 daginn eftir á Austurvelli til þess að fylgja kröfunni enn frekar eftir. Vonandi þarf ekki fleiri slíka.

Share Button

Hugmyndaflugið í íslenska landbúnaðarkerfinu

Share Button

esb-isl2-300x166Sigurður Ingi Jóhannesson, landbúnaðarráðherra, lýsti því yfir á Alþingi í gær að nauðsynlegt væri að fækka stórgripasláturhúsum hér á landi. Þau eru nú níu en nægilegt væri að starfrækja tvö eða þrjú á landinu öllu, segir ráðherrann sem er sammála samtökum sláturleyfishafa um að stefna þurfi að þessari fækkun.

Ráðherrann hefur sem sagt þá sýn að það þurfi að auka samþjöppun í landbúnaði hér á landi. Æskilegt sé að fækka sláturhúsum og aka stórgripum landshorna á milli til slátrunar.

Hér með er – þrátt fyrir allt – lýst aðdáun á því skáldlega hugmyndaflugi sem þessi tillaga ber vott um í öllum sínum fáránleika.

Neytendur hafa lengi kallað eftir því að lögð verði meiri áhersla en verið hefur á að framleiða heimaunnar afurðir frá bændum. Auka þurfi fjölbreytni í matvælaframleiðslunni. Verslanir eins og Frú Lauga og fleiri hafa sprottið upp þar sem hlúð er að þeim sprotum sem reyna að mæta eftirspurn eftir heimaunnum matvörum þar sem fjölbreytni í framleiðslu og vinnslu fær að njóta sín.

Glæsileg sýning, sem haldin var í Hörpu síðastliðið haust, sýndi að þrátt fyrir öflugan mótþróa frá hinu miðstýrða kerfi er mun meiri gróska en áður í slíkri starfsemi.

Frumkvöðlar í sveitum sem reynt hafa að mæta þessari eftirspurn hafa tjáð sig um það hvernig landbúnaðarkerfið lítur nýsköpunartilraunir þeirra hornauga og virðist vilja steypa allt í sama mótið inni í frystiklefum og kæligeymslum Kaupfélags Skagfirðinga, Mjólkursamsölunnar eða Sláturfélags Suðurlands.

Sýn ráðherrans er í andstöðu við hagsmuni frumkvöðla og neytenda. Hann vill þjappa saman, auka miðstýringu og virðist leggja meiri áherslu á að sjá hag sláturleyfishafanna vel borgið fremur en að koma til móts við óskir neytendanna og ýta undir nýsköpun.

Þá vakna spurningar um það í þágu hverra er stjórnað?

Því er Evrópubloggið að gera þetta að umtalsefni að þetta sérkennilega mál mál bregður skýru ljósi á mun sem er á íslenskri landbúnaðarstefnu og þeirri þróun sem landbúnaðar- og byggðaþróunarstefna Evrópusambandið miðast við að ýta undir. Stefna Evrópusambandsins gengur út á að ýta undir fjölbreytni og margbreytileika ólíkra byggðarlaga og framleiðslu heimaafurða. Víða í álfunni eru til að mynda reknir sérútbúnir bílar, sláturhús á hjólum, sem fara um sveitir, hem á bæi og slátra gripum þar. Það er farið með slátrarann til gripanna í stað þess að ferja gripina landshluta á milli og til slátrarans. Bílarnir eru útbúnir á þann hátt að þeir standast allar þær alþjóðlegu heilbrigðiskröfur sem íslensk sláturhús hafa iðulega átt erfitt með að uppfylla.

Bændurnir, hver fyrir sig, eða fleiri í félagi, láta svo vinna úr kjötinu heima á bæjunum eða þar í grennd. Þá er jafnvel sótt vinnuafl í þéttbýlið til að stunda atvinnu í sveitum, sem væri enn ein nýlundan hér á landi.

Aðild að Evrópusambandinu mundi greiða fyrir þessari þróun hér á landi, koma þannig til móts við óskir neytenda og styðja við þá bændur og þau fyrirtæki sem vildu vinna að því að auka fjölbreytni í stað þess að auka samþjöppun og stuðla að einsleitni og fjöldaframleiðslu.

Sjálfsagt mundi slík þróun ekki henta núverandi afurðastöðvum og sláturleyfishöfum. En það er líka svo margt skrýtið í því kerfi.  Í eina tíð þótti það til dæmis góður bisness í íslenska afurðastöðvabransanum  að geyma kjöt sem lengst í frystigeymslum. Þá fengust greiddar uppbætur úr ríkissjóði – því hærri greiðslur sem kjötið var lengur í frystinum.

Share Button

Í félagsskap frjálslyndra

Share Button

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sótti á dögunum heimsþing Liberal International, LI, heimssamtaka Frjálslyndra flokka, sem haldið var í Rotterdam í Hollandi.

Áherslumál þingsins að þessu sinni var að leita leiða til þess að auka alþjóðleg viðskipti. Ekki er ljóst hvort alþjóðleg viðskipti með landbúnaðarvörur voru sérstaklega tekin til umræðu en almennt má ætla að frjálslyndir menn í Evrópu telji að landbúnaðarvörur lúti sömu lögmálum og aðrar vörur í viðskiptum.

Framsóknarflokkurinn hefur lengi átt aðild að LIberal International en hvað varðar afstöðu til Evrópusambandsins hefur flokkurinn um þessar mundir talsverða sérstöðu meðal evrópskra flokka sem eiga aðild að samtökunum.

Hvarvetna í Evrópu eru frjálslyndir flokkar meðal helstu talsmanna alþjóðlegs samstarfs og þá einkum samstarfs Evrópuþjóða á vettvangi Evrópusambandsins.

Til marks um það er að ALDE, samband frjálslyndra Evrópuþingmanna, er einn af aðildarflokkum Liberal International.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt  Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, (fyrir miðri mynd),  Arthur Mas, (annar frá hægri), )forseta Katalóníu, og fleiri frjálslyndum Evrópumönnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, (fyrir miðri mynd), Arthur Mas, (annar frá hægri), )forseta Katalóníu, og fleiri frjálslyndum Evrópumönnum.

Önnur vísbending um áherslu frjálslyndra manna í Liberal International á samstarf á vettvangi Evrópusambandsins er til dæmis málflutningur eins þekktasta stjórnmálamanns Evrópu úr röðum frjálslyndra um þessar mundir, sem er Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og formaður Frjálslyndra demókrata þar í landi.

Hann er eindreginn talsmaður Evrópusambandsins og fullrar þátttöku  Bretlands í starfi innan þess.

Í augum almennings og fjölmiðla í Bretlandi er Nick Clegg höfuðandstæðingur þeirra sjónarmiða sem Nigel Farage, formaður UKIP, flokksins sem vill að Bretar gangi úr Evrópusambandinu, talar fyrir.

Hér á landi hefur málflutningur forsvarsmanna Framsóknarflokksins hins vegar einatt verið eins og upp úr bæklingum og áróðri frá Nigel Farage og í algjörri andstöðu við viðhorf sem vænta má úr röðum frjálslyndra stjórnmálamanna í Evrópu.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sem var gestgjafi heimsþingsins og átti fund með íslenska forsætisráðherranum meðan á því stóð, kemur einnig úr röðum flokks eindreginna hollenskra ESB-sinna.

Hið sama má segja um þá flokka á Norðurlöndunum, sem eiga aðild að LI. Flokkar eins og Venstre og Radikale Venstre í Danmörku og Centerpartiet og Frjálslyndi þjóðarflokkurinn (Flokpartiet Liberalerna) í Svíþjóð hafa jafnan haldið á lofti viðhorfum og stefnu varðandi samstarf Evrópuþjóða sem er í algjörri andstöðu við þau viðhorf sem heyrast frá forystu Framsóknarflokksins um þessar mundir og bera merki þjóðernishyggju og einangrunarstefnu í alþjóðamálum.

Í bæði Danmörku og Svíþjóð, eins og fleiri löndum Evrópu, eiga tveir frjálslyndir flokkar aðild að Liberals International en hér á landi er það eingöngu Framsóknarflokkurinn, sem á aðild að samtökunum. Það hefur í för með sér að viðhorf þeirra Íslendinga sem telja sig frjálslynda (Liberal) í evrópskum skilningi og deila afstöðu frjálslyndra manna í Evrópu til Evrópusambandsins og samstarfs Evrópuþjóða eiga nú engan málsvara á alþjóðlegum vettvangi.

En íslenskir Evrópusinnar hljóta að minnsta kosti að gæla við það að að návígið við frjálslynda Evrópusinna á Heimsþingi Frjálslynda flokka hafi stuðlað að því að telja forsætisráðherranum hughvarf varðandi það að láta Alþingi samþykkja tillög utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild Íslands að Evrópusambandinu án þess að staðið verði við þau kosningaloforð sem stjórnarflokkarnir gáfu síðastliðið vor.

Eins og kunnugt er urðu þau loforð til þess að Evrópumálin voru í raun ekki á dagskrá í kosningabaráttunni vegna Alþingiskosninganna 2013. Þjóðin treysti vilyrðum Sigmundar Davíðs, Bjarna Benediktssonar og annarra forystumanna um að framhald málsins mundi ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki á vettvangi Alþingis.

Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga sem felur í sér svik á þeim loforðum. Slík framganga í málefnum sem varða Evrópusamvinnu og lýðræðislega þátttöku almennings í mikilvægum ákvörðunum eru í hróplegri andstöðu við áherslur og viðhorf þeirra sem teljast til frjálslyndra manna í stjórnmálum í okkar heimshluta.

ps.

Evrópublogginu hefur borist ábending um að Björt framtíð er í tengslum við ALDE, þingmannahóp Evrópuþingsins. Þess má jafnvel vænta að innan fárra ára fái Björt framtíð fulla aðild að Liberal International en flokkurinn telur sig eiga samleið með samtökunum.

Share Button