Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár

Share Button

photo 5„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka mið af áhersl­um Evr­ópu­sam­bands­ins, en eng­in frek­ari stækk­un sam­bands­ins mun eiga sér stað næstu fimm árin,“ sagði Jean-Claude Juncker, verðandi for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evrópusambandsins, í ræðu sem hann flutti í Evrópuþinginu í dag en þar lýsti hann þeim áherslum sem hann hyggst starfa eftir meðan á kjörtímabili hans stendur, en því lýkur á árinu 2019.

Þessi yfirlýsing setur Evrópumálin enn einu sinni á dagskrá í íslenskum stjórnmálum og veitir skýra vísbendingu um það hversu mikið er í húfi að ríkisstjórnin standi án frekari tafa við ótvíræð kosningaloforð sín um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands að ESB. Ljóst má vera að vilji Junckers stendur til þess að lokið verði við þær viðræður.

Á ensku hljómar yfirlýsing Junckers svo:

Under my Presidency of the Commission, ongoing negotiations will continue, and notably the Western Balkans will need to keep a European perspective, but no further enlargement will take place over the next five years. With countries in our Eastern neighbourhood such as Moldova or Ukraine, we need to step up close cooperation, association and partnership to further strengthen our economic and political ties.

Þessi yfirlýsing hefur mikla og augljósa þýðingu fyrir íslenska hagsmuni.

Nú er orðið ljósara en nokkru sinni fyrr hve gríðarlegu tjóni það mundi valda íslenskum hagsmunum og stöðu landsins á alþjóðlegum vettvangi ef núverandi ríkisstjórn lætur undan þrýstingi úr baklandi sínu um að stíga það ógæfuskref að slíta því aðildarferli, sem hófst með samþykkt Alþingis á aðildarumsókn þann 16. júlí 2009.

Í ljósi yfirlýsingar Junckers yrðu afleiðingarnar ennþá afdrifaríkari og skaðvænlegri en áður hefði verið talið.

Nú er staða málsins sú að gert hefur verið hlé á aðildarviðræðunum. Fyrir liggja loforð beggja ríkisstjórnarflokkanna um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu þar sem þjóðin muni taka ákvörðun um framhald aðildarviðræðnanna.

Stjórnarflokkarnir hafa með yfirlýsingum sínum í aðdraganda Alþingiskosninganna 2013 lýst því yfir að framhald málsins sé ekki lengur á borði Alþingis heldur muni þeir vísa ákvörðun um framhaldið til þjóðarinnar.

Tilraun ríkisstjórnarinnar, undir forystu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, til þess að svíkja þessi loforð og láta þingið samþykkja að draga aðildarumsóknina til baka var hrundið með samstilltu og markvissu átaki þjóðarinnar þar sem tæpur fjórðungur kosningabærra manna undirritaði yfirlýsingu til að mótmæla þeim áformum.

Á þeim tíma var ljóst að slit aðildarviðræðna mundu valda skaða á hagsmunum þjóðarinnar með því að ógilda í raun allt það starf sem farið hefur fram vegna viðræðnanna síðastliðin fimm ár.

Það er ljóst að aðildarviðræðurnar við Íslendinga eru meðal þeirra sem Evrópusambandið verður tilbúið til að ljúka á yfirstandandi kjörtímabili framkvæmdastjórnar Junckers. Það er fráleitt að túlka yfirlýsingu hana með nokkrum öðrum hætti enda er nú hlé á viðræðum Íslands við ESB. Viðræðunum hefur ekki verið slitið.

Það er jafnljóst að láti ríkisstjórnin undir þrýstingi fámenns en háværs hóps stuðningsmanna sinna um að hefja á ný það feigðarflan sem lagt var út í með framlagningu þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar á síðasta vetri verður ennþá meira í húfi en áður.

Ef sú leið verður farin yrði ekki aðeins ónýtt vinna síðustu fimm ára heldur um leið lokað til næstu fimm ára þeim dyrum sem Íslandi standa enn opnar og fela í sér möguleikann á að að leiða aðildarviðræðurnar til lykta án tafar og nýta aðildarferlið til þess að stíga þau einu raunhæfu skref sem bjóðast til þess að aflétta hér gjaldeyrishöftum og koma á opnum markaðsbúskap að hætti annarra vestrænna þjóða á Íslandi.

Það er því enn meira í húfi en fyrr fyrir íslenska hagsmuni að ríkisstjórnarflokkarnir dragi ekki frekar að standa við kosningaloforð sín um það að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin geti sjálf tekið ákvörðun um hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram eða ekki.

Share Button

Skyld blogg
Alþingi slitið, ekkert sumarþing, málatilbúnaður ríkisstjórnar að engu orðinn
Alþingi hefur verið slitið, sumarþing verður ekki haldið og nýtt þing verður sett þann 9. september. Það felur í sér...
Af hverju tala þeir ekki skýrt og útiloka afgreiðslu tillögu Gunnars Braga á sumarþingi?
Svo virðist sem í dag hafi fyrst hafist af alvöru meðferð utanríkismálanefndar Aþingis á tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn...
Tillaga Gunnars Braga verður látin daga uppi á Alþingi í vor
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokkinn, hefur gefið sterklega til kynna í fjölmiðlum í dag að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að...