Yfirlit úrslita í kosningum til Evrópuþings: EPP og S&D stærstir. Jaðarflokkar sóttu á en áhrif þeirra óviss

Share Button
Skipting þingsæta milli flokkahópa á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í maí 2014.

Skipting þingsæta milli flokkahópa á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í maí 2014. Mynd: Europaportalen.se

EPP, flokkur Evrópuþingmanna, þar sem m.a. er að finna kristilega demókrata og marga aðra hægrimenn í Evrópu, er stærsti þingmannahópurinn á Evrópuþinginu eftir kosningarnar, síðustu daga. Næststærsti hópurinn er skipaður sósíaldemókrötum.

Íhaldsmenn og kristilegir demókratar í EPP fengu 28% allra atkvæða, samkvæmt útreikningum, sem kynntir eru á sænsku vefsíðunni Europaportalen.se í dag og byggir á tölum frá öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins.

S&D, hópur sósíaldemókrata fékk 25% og heldur stöðu sinni sem næststærsti flokkahópurinn. Þá koma frjálslyndir þingmenn innan hópsins Alde, sem fengu um 9%, og síðan hópur græningja með tæp 7%. Hægrisinnaðir efasemdamenn um Evrópusambandið mynda hópinn ECR, þar sem breski Íhaldsflokkurinn er bæði langstærstur og -áhrifamestur og fá um 6%, svipað og vinstriflokkarnir sem mynda saman GUE-þingmennahópinn.

EPP, S&D og Alde tapa fylgi frá kosningunum 2009, en eins og fram er komið í fjölmiðlum hafa flokkar ESB-andstæðinga á bæði hægri og vinstri vængnum hlotið stóraukið fylgi.

Í störfum Evrópuþingsins hafa flestar ákvarðanir verið teknar í gegnum samkomulag og málamiðlanir milli EPP, S&D og Alde. Í kjölfar kosningaúrslitanna nú er búist við því, segir Europaportalen, að þessir stóru flokkahópar vinni enn þéttar saman en áður til þess að reyna að afstýra því að jaðarflokkarnir komist til áhrifa.

Göran von Sydow, fræðimaður við Svenska institutet för europapolitiska studier, telur að lagasetning á Evrópuþinginu kunni nú að verða tafsamari vegna þess að tilraunir til að ná samstöðu milli stóru hópanna þriggja verði tímafrekari en áður. Eins sé hætt við því að löggjöfinn verði útvatnaðri en ella.

Ennþá erfiðara geti svo orðið að ná meirihluta um mál þar sem stærstu hópar þingmanna til hægri og vinstri ná ekki samkomulagi. Það muni meðal annars eiga við um félagsleg  málefni, fyrirhugaðan fríverslunarsamning við Bandaríkin og loftslagsmálin.

„Það kann að vera að í þeim málum þar sem þeir eiga erfitt með að ná samstöðu stóru hópanna verði leitað samstarfs við hópana á jöðrunum, þess í stað,“ segir Göran von Sydow.

Í fjölmörgum löndum þýðir niðurstaðan það að ráðandi stjórnmálaflokkar tapa fylgi frá síðustu kosningum en ESB-andstæðingar á jöðrunum sækja í sig veðrið. Þjóðernissinnaðir flokkar eru stærstir á Evrópuþinginu meðal fulltrúa Breta, Dana og Frakka. Þjóðernissinnaði þingmannahópurinn EFD, þar sem bæði Danski þjóðarflokkurinn og hinn breski UKIP starfa, er nú mun fjölmennari en árið 2009.

Síðast en ekki síst er niðurstaðan sú að þingmönnum sem standa utan flokkahópa fjölgar frá því sem áður var. Þeir verða nú 41 talsins en voru 33. Þessir þingmenn eru oftar en ekki fulltrúar flokka sem eru andvígir ESB og innflytjendum. Þetta á meðal annars við þingmenn Front National í Frakklandi, sem sitja nú utan flokkahópa, en standa nú fyrir viðræðum við erlenda samherja um að mynda nýjan flokkahóp. Auk þessara þingmanna náðu kjöri 63 nýir Evrópuþingmenn fyrir hönd flokka sem ekki hafa áður átt fulltrúa á Evrópuþinginu.

Sænski stjórnmálafræðingurinn Göran von Sydow telur þó (líkt og danskir kollegar hans sem við sögðum frá á dögunum) að flokkar ESB-andstæðinga og þjóðernissinna muni hafa takmörkuð áhrif á Evrópuþinginu, hér eftir sem hingað til.

„Beinu áhrifin af þessu á lagasetningu og atkvæðagreiðslur verður að telja býsna lítil vegna þess að þessir flokkar ESB-andstæðinga eru sundurleitur hópur og þeim reynist erfitt að mynda hópa. Hingað til hafa þeir líka einkum nýtt sér Evrópuþingið sem vettvang til þess að koma á framfæri skilaboðum í sínum heimalöndum [um andstöðu við ESB],“ segir Göran von Sydow.

Hann bætir því við að þess séu fá dæmi að fulltrúar þessara flokka hafi átt frumkvæði að lagasetningu og að samstarf þeirra og samstaða standi veikum fótum. Þá hafi hinir bresku fulltrúar Ukip áberandi oft verið fjarrstaddir við kosningar innan þingsins.

Bráðabirgðatölur benda til þess að þátttaka Evrópubúa í kosningunum hafi verið 43,1%, og stóð nánast í stað en hún var 43,0% árið 2009. Það er í fyrsta skipti í sögu Evrópuþingsins sem þátttaka minnkar ekki milli kosninga. Að frátöldum þeim löndum (Belgíu og Lúxemborg) þar sem það er lagaleg skylda að taka þátt í kosningum, voru aðeins fjögur lönd þar sem þátttakan var meiri en 50%.

Hér á eftir er yfirlit yfir niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins í löndunum 28, miðað við fjölda Evrópuþingmanna.

Svíþjóð

Græningjar eru næststærsti flokkur Svíþjóðar á Evrópuþinginu, með 15,2% atkvæða. Pópúlistarnir í Sænskum demókrötum buðu fram í fyrsta skipti og fengu tvo menn kjörna og 9,8% atkvæða. Flokkur Femínista, sem einnig bauð nú fram í fyrsta skipti, fékk einn Evrópuþingmann og 5,3% atkvæða
Sósíaldemókratar fengu 24,5% atkvæða og sex fulltrúa eins og áður. Moderaterna, hægriflokkur Reinfeldt forsætisráðherra, fékk 13,5% og þrjá þingmenn en hafði fjóra áður. Pírataflokkurinn tapaði báðum þingmönnum sínum á Evrópuþinginu og fékk aðeins 2,2% atkvæða. Þjóðarflokkurinn fékk 9,9% og 2 þingmenn en hafði þrjá áður. Vinstri flokkurinn fékk rúm 6% og hefur einn þingmann eins og áður.

Danmörk

Danski þjóðarflokkurinn er flokkur hægri sinnaðra pópúlista og er nú orðinn stærsti flokkur Dana á Evrópuþinginu, fékk 26,5% atkvæða. “Mindre EU, mera Danmark” var slagorð Morten Messerschmidt, leiðtoga flokksins í kosningunum, og það sló í gegn hjá kjósendum. Sósíaldemókratar eru næststærsti flokkahópurinn þrátt fyrir að fá einungis 19% atkvæða. Kosningaþátttaka í Danmörku var nú þremur prósentustigum minni en árið 2009 eða 56,4%.

Finnland

Miðjuflokkarnir Samstöðuflokkurinn (22,6%)og Miðflokkurinn (19,7%) fengu hvor um sig þrjá af þrettán fulltrúum Finna á Evrópuþinginu. Þjóðernissinnarnir í flokki Sannra Finna eru þriðji stærsti flokkurinn með tæp 13% og tvo fulltrúa á Evrópuþinginu. Kosningaþátttaka jókst um tvö prósentustig og náði 41%.

Bretland

ESB-andstæðingarnir í hinum hægri sinnaða og þjóðernissinnaða flokki Ukip undir forystu Nigel Farage unnu stórsigur og fengu alls 27,5% atkvæða og eru stærsti breski flokkurinn á Evrópuþinginu næstu árin og eiga þar fleiri fulltrúa en bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn. Farage sagði að með þessu hefði hann fengið þann draum sinn uppfylltan að Upið yrði „þriðja stjórnmálaaflið“ í Bretlandi. ESB-sinnarnir í Frjálslynda demókrataflokknum undir forystu aðstoðarforsætisráðherrans Nick Clegg guldu afhroð og aðeins einn fulltrúi náði kjöri á Evrópuþingið fyrir hönd þess flokks. David Cameron, forsætisráðherra, sagði eftir kosningarnar að þjóðin hefði orðið fyrir vonbrigðum með ESB. Hann sagðist meðtaka skilaboðin og átta sig á hvað í þeim felist.

Þýskaland

Í Þýskalandi voru það tveir helstu stjórnmálaflokkar landsins sem urðu stærstir; Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar. Þar sem þýski stjórnlagadómstóllinn hafði fellt út gildi löggjöf með kröfum að lágmarksfylgi á landsvísu náðu fulltrúar fjölmargra smáflokka kjöri. Það á meðal annars við um nýnasista í NPD, Dýraverndunarflokkinn og Pírataflokkinn. Hver þessara þriggja fékk einn þingmann. ESB andstæðingar í AfD fengu sjö þingsæti.

Frakkland

Stærstu tíðindi kosninganna urðu í Frakklandi. Þar hlaut Front National, flokkur Marine Le Pen, 25% atkvæða og mest fylgi allra flokka, fleiri en hægri flokkurinn UMP (Chirac og Sarkozy) og Sósíalistaflokkur forsetans Francois Hollande, sem beið afhroð og varð að láta sér nægja tæp 14%. Forsætisráðherrann Manuel Valls líkti niðurstöðunni við „pólitískan jarðskjálfta.“

Ítalía

Forsætisráðherrann Matteo Renzis og flokkur hans, Sósíaldemókratar, unnu góðan sigur og fengu um 40%. Aðeins er mánuður þar til ríkisstjórn Renzis tekur við formennsku í ráðherraráði ESB fyrir hönd Ítala. Grínistinn Beppe Grillo og Fimmstjörnuhreyfingin, sem hann stofnaði, hlaut sterka kosningu og 21% atkvæða. Flokkur Silvios Berlusconis, Forza Italia, fékk lakari kosningu en nokkru sinni fyrr í sögu sinni.

Spánn

Partido Popular er íhaldsflokkur sem ræður ríkisstjórn Spánar og hlaut örlítið betri kosningu en höfuðandstæðingarnir í flokki Sósíalista. Spænskir smáflokkar gengu hins vegar sáttir frá borði og fengu samanlagt um 40% atkvæða í landinu. Meðal spænskra nýliða á Evrópuþinginu er flokkurinn Podemos (Við getum), sem er sprottinn upp úr mótmælaaðgerðum í kjölfar evru- og bankakreppunnar. Podemos fékk 8% atkvæða. Spænskir fjölmiðlar túlka úrslitin þannig að kjósendur vilji refsa stóru flokkunum tveimur fyrir kreppuna en annar þeirra tapaði átta en hinn níu sætum á Evrópuþinginu frá kosningunum 2009. Alfredo Pérez Rubalcaba, leiðtogi Sósíalista, sagði af sér eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir.

Pólland

ESB-andstæðingar í flokknum Lög og réttur og hin hægrisinnaða Borgarahreyfing, sem veitir ríkisstjórninni forystu, eru stærstu flokkar Póllands á Evrópuþinginu með 19 fulltrúa hvor. Öfgahægrimennirnir í Nowa Prawica, undir forsæti hins umdeilda Janusz Korwin-Mikke, eiga fjóra Evrópuþingmenn.

Rúmenía

Sósíaldemókratar eru langstærstir með 42,4% atkvæða og 18 Evrópuþingmenn og eiga einungis þrjár þjóðir fleiri fulltrúa í þingmannahópi S&D. Næststærstir urðu frjálslyndir og flokkur þeirra PNL. Þeir sitja í Alde-hópnum en hafa rætt um að skipta yfir til kristilegra demókrata og hægrimanna í EPP. Með því vill flokksleiðtoginn, Crin Antonescu, vinna gegn því að sósíalistar ráði of miklu um málefni Evrópu.

Holland

Flokkurinn PVV undir forystu Geert Wilders, andstæðings ESB og þeirra sem játa islam, fékk mun lakari útkomu en kannanir höfðu spáð og aðeins fjóra Evrópuþingmenn. Jafnmarga þingmenn fengu Evrópusinnarnir í hinum frjálslynda flokki D66 og kristilegir demókratar í CDA. Alls eiga tíu hollenskir flokkar fulltrúa á þinginu.

Belgía

Öftahægriflokkurinn Vlaams Belang hélt einu þingsæti, þrátt fyrir að kannanir hafi gefið annað til kynna. Hægrisinnaðir, flæmskir aðskilnaðarsinnar í N-VA eru stærsti flokkur landsins. Alls eiga flæmskir flokkar tólf fulltrúa á Evrópuþinginu en átta eru fulltrúar frönskumælandi og einn þýskumælandi.

Grikkland

Hinn vinstrisinnaði flokkur Syriza er stærstur grískra flokka á Evróuþinginu en leiðtogi hans, Alexis Tsipras, er meðal frambjóðenda til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB. Flokkurinn fékk sjö þingmenn kjörna, einum fleiri en Nýtt lýðræði, flokkur Samaras, forsætisráðherra. Nýnasistarnir alræmdu í Gullinni dögun fengu 9,4% atkvæða grískra kjósenda sem skilaði flokknum tveimur sætum á Evrópuþinginu.

Portúgal

Í Portúgal eru Sósíaldemókratar, sem sitja í stjórnarandstöðu, stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu með átta þingsæti, en kosningabandalag hægriflokkanna, sem fara með ríkisstjórnartaumana í landinu, fékk sjö þingmenn kjörna.

Tékkland

Kosningaþátttaka var aðeins 19,5%, langtum minni en nokkru sinni fyrr frá því landið fékk aðild að ESB. Þrír stærstu flokkar Tékka á Evrópuþinginu eru ANO, sem er nýstofnaður frjálslyndur flokkur, íhaldsflokkurinn TOP09, og sósíaldemókrataflokkurinn ČSSD. Hver þeirra fékk fjögur þingsæti. Kommúnistaflokkurinn KSČM fékk þrjú þingsæti og Svobodní, nýlega stofnaður flokkur ESB-andstæðinga, eitt.

Ungverjaland

Íhaldsmennirnir í ríkisstjórnarflokknum Fidesz fengu alls 12 af 21 fulltrúum landsins á Evrópuþinginu. Jobbik, flokkur hægriöfgamanna fékk nærri því 15% atkvæða og heldur sínum þremur Evrópuþingmönnum. Kosningaþátttaka var 29%.

Austurríki

Flokkarnir tveir, sem ávallt eiga sæti í ríkisstjórn landsins, hægriflokkurinn ÖVP og sósíaldemókrataflokkurinn SPÖ, eru stærstir með fimm þingmenn hvor. FPÖ, flokkur ESB-andstæðinga og innflytjanda, jók fylgi sitt um sjö prósent frá 2009 og fékk fjögur þingsæti. Græningjar bættu einnig við sig fylgi og fengu þrjá þingmenn en höfðu áður tvo.

Búlgaría

Hægriflokkurinn Gerb hefur nú sex Evrópuþingmenn innan sinna vébanda en þeir voru fimm áður. Fulltrúar öfgaþjóðernissinna í Ataka-flokknum náðu ekki kjöri.

Slóvakía

Slóvakar settu met. Aldrei og hvergi hefur þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins verið minni en þar nú. 13% Slóvaka komu á kjörstað. Sósíaldemókratar, sem stýra ríkisstjórninni, fengu flesta Evrópuþingmenn, eða fjóra, en þeir höfðu fimm áður.

Írland

Vinstriflokkurinn Independents hlaut óvænt 24% atkvæða og er stærsti flokkur landsins, stærri en hinn frjálslyndi Fianna Fáil og kristilegu demókratarnir í Fine Gael. Kosningaþátttaka var 51,6%.

Króatía

Þetta var í fyrsta skipti sem Króatar tóku þátt í Evrópuþingskosningum og niðurstaðan varð þá sú að 41% atkvæða féllu í skaut kosningabandalagi þriggja þjóðernissinnaðra hægriflokka. Kosningabandalag sósíaldemókrata og frjálslyndra fékk tæp 30% atkvæða og næstflesta þingmenn.

Litháen

Frálslyndir íhaldsmenn í TS-LKD eru stærsti flokkurinn en aðeins með 18% atkvæða. Sósíaldemókratar guldu afhroð og fengu 17%. Kosningaþátttaka jókst um 23 prósentustig og náði 45%.

Lettland

Frjálslyndir íhaldsmenn í Vienotiba-flokknum fengu 46% atkvæða og eru langstærstir. Kosningaþátttaka var aðeins 30%, 20 prósentustigum minni en árið 2009.

Slóvenía

Mið-hægriflokkarnir SDS og NSi/SLS fengu flest atkvæði og samtals fimm af átta Evrópuþingmönnum landsins.

Kýpur

Mið-hægriflokkurinn Lýðræðisfylkingin fékk flest atkvæði og tvo þingmenn á Evrópuþinginu, líkt og kommúnistaflokkurinn Akel. Tveir flokkar sósíaldemókrata skiptu milli sín hinum þingsætunum tveimur.

Eistland

Tveir frjálslyndir flokkar fengu samtals þrjá af sex Evrópuþingmönnum landsins.

Luxemborg

Kosningaþátttaka var mest í Lúxemborg og Belgíu, eða um um 90%, enda er það lagaskylda í löndunum tveimur að mæta á kjörstað. Kristilegi þjóðarflokkurinn CSV/PCS fékk tæp 38% atkvæða. Græningjar eru næststærstir með 15%.

Malta

Kosningaþátttaka var 74,8%, meiri en í nokkru öðru landi þar sem ekki er skylt samkvæmt lögum að kjósa. Sósíaldemókratar fengu fjóra af sex Evrópuþingmönnum landsins.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Krónunni verður aldrei fleytt aftur. Meðan hér verður króna verða höft
Íslenska krónan verður í einhvers konar höftum um alla framtíð. Meðan hún er gjaldmiðill Íslendinga verða höft óhjákvæmileg. Frá sjónarhóli...
Jaðarflokkum spáð velgengni í Evrópuþingskosningum: Áhrifalitlir í Brussel en hafa áhrif á stjórnmál aðildarríkjanna
Andstæðingum Evrópusamrunans á hægri og vinstri væng stjórnmálanna er spáð auknu fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hefjast í dag....