Jaðarflokkum spáð velgengni í Evrópuþingskosningum: Áhrifalitlir í Brussel en hafa áhrif á stjórnmál aðildarríkjanna

Share Button

Andstæðingum Evrópusamrunans á hægri og vinstri væng stjórnmálanna er spáð auknu fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hefjast í dag.

Um 200 af 751 þingsætum á Evrópuþinginu verða að líkindum skipuð þingmönnum úr þeim herbúðum ef marka má þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið síðustu daga. Á þinginu sem nú er að ljúka störfum starfa vinstrisinnaðir efasemdarmenn um ESB saman í flokkahópnum GUE/NGL. Hægra megin mynda þeir EFD-hópinn og eiga einnig sterk ítök í jaðarhópnum ECR, sem hefur byggst upp í kringum breska Íhaldsflokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn á einmitt aðild að alþjóðasamstarfsvettvangi ECR. Einnig er nokkuð um þingmenn utan sem eru eindregnir í andstöðu sinni við ESB, en telja sig ekki rúmast innan þessara flokkahópa. Þess er vænst að eftir kosningarnar nú verði þeir orðnir nógu margir til að mynda eigin flokkahóp.

Það eru ekki síst flokkarnir yst á hægri vængnum sem taldir eru eiga kosningasigra í vændum í kosningunum sem hefjast í dag; flokkar eins og Jobbik í Ungverjalandi, Front National undir stjórn Le Pen í Frakklandi, hollenski Frelsisflokkurinn (PVV) undir stjórn Gesrt Wilders og í Austurríki er líka Frelsisflokkur (FPÖ), sem kannanir gefa til kynna að muni sækja í sig veðrið. Til þessa hafa þessir flokkar ekki haft sameiginlegan flokkahóp á Evrópuþinginu.

Róttækum vinstri flokkum, sem gagnrýna ESB harðlega, er einnig spáð auknu fylgi, til dæmis SYRIZA í Grikklandi og Fimm stjörnuhreyfingu grínistans Beppe Grillo á Ítalíu.

Á danska vefmiðlinum Althinget.dk, en umfjöllun þaðan er nú endursögð hér, er rætt við Nathalie Brack, doktor við Oxford-háskóla, en hún hefur rannsakað jaðarflokkana á Evrópuþinginu. Hún telur að raunveruleg áhrif þessara jaðarafla muni ekki aukast þrátt fyrir aukið fylgi þeirra og að aukinn styrkur þeirra muni litlu breyta um dagleg störf Evrópuþingsins. Það mat skýrir hún með því að margir þessara hörðu ESB-andstæðinga séu hreinlega ekki tilbúnir til þess að beita sér af krafti í starfi stofnunar sem þeir eru á móti.

„Sérstaklega eru það flestir róttæku hægri mennirnir sem eru ekki komnir á Evrópuþingið til þess að starfa á sama hátt og venjulegir Evrópuþingmenn mundu gera. Þeirra grundvallarafstaða er sú að þeir vilji ekki gefa Evrópuþinginu lögmæti og þeir óttast að gera með því að taka virkan þátt í löggjafarstarfinu,“ segir hún og bætir við: „Þeir nýta áhrif sín á annan hátt en þeir vilja ekki samlagast Evrópuþinginu.“

Nathalie Brack telur að ESB-andstæðingunum við báða enda hins pólitíska litróft megi skipta upp í nokkra hópa.

Það eru tildæmis þeir sem eru fjarverandi og hafa svo mikinn ímugust á samkomunni að þeir reyna að koma þangað eins sjaldan og vera þar eins lítið og mögulegt er. Þetta hefur til dæmis átt við um fulltrúa Front National í Frakklandi.

Svo eru það „eldklerkarnir“, sem fyrst og fremst nýta stöðu sína í Evrópuþinginu til þess að segja öllum, sem heyra vilja, hversu spillt og ólýðræðislegt Evrópusambandið er. Sem dæmi um það mætti nefna UKIP frá Bretlandi og formann þess flokks, Nigel Farage, sem talið er að verði helsti sigurvegari kosninganna í Bretlandi. Hann er þekktur fyrir kjarnyrtar árásir sínar sem leiðtogum ESB svíður sárt undan.

Á jöðrunum er líka að finna pragmatista, sem eru sáttir við að vera eilíflega í andstöðuhlutverki en vilja gjarnan beita þeim áhrifum sem þeir geta á löggjöf ESB. Nathalie Brack telur að Jens Peter Bonde, fyrrverandi Evrópuþingmann dönsku Júníhreyfingarinnar, sé gott dæmi um slíkan mann sem á þrjátíu ára ferli í einbeittri andstöðu við Evrópusamrunann reyndi stöðugt að hafa áhrif á starfshættina og reglurnar

Að lokum eru það hinir félagsmótuðu, venjulega rosknir Evrópuþingmenn flokka eins og breska Íhaldsflokksins, sem vilja njóta stöðu venjulegra Evrópuþingmanna á sama hátt og aðrir þrátt fyrir að flokkarnir sem þeir eru fulltrúar fyrir séu í grundvallaratriðum í andstöðu við mikilvæga þætti þess alþjóðlega samstarfs sem fer fram innan sambandsins.

Fyrir utan eindregnu andstöðuna við Evrópusamrunan eiga þessir hópar það svo sameiginlegt að vegna hennar mæta þeir tregðu innanbúðarmanna til þess að hleypa þeim að borðinu ef þeir á annað borð sýna áhuga á nota tímann í Evrópuþinginu til þess að beita sér með þeim hætti.

„Það eru nokkur dæmi um það að Evrópuþingmenn sjálfir hafi dregið sig í hlé þegar þeir stóðu frammi fyrir því að geta orðið nefndarformenn eða talsmenn nefnda. Því réði vantrú þeirra á að hægt yrði að fá Evrópuþingið til þess að styðja hugmyndir sem ættu rót í andstöðu við ESB. Þeir nenna því ekki að setja mikinn tíma í eitthvað sem endar í glatkistunni eða tekur svo miklum breytingum í ferlinu að þeir munu á endanum greiða atkvæði á móti því sjálfir. Svo eru líka dæmi um hitt að menn eru settir svo kyrfilega á bás að varla nokkur maður vill vinna með þeim eða fela þeim ábyrgð af nokkru tagi,“ staðhæfir Nathalie Brack.

Maja Kluger Rasmussen, sem starfar við rannsóknir á Evrópuþinginu við London School of Economics, er sammála því að eins og Evrópuþingið starfar sé þessum andstæðingum og efasemdarmönnum ekki gefið mikið rými.

„Kerfið hvetur ekki til stöðugrar andstöðu vegna þess að Evrópuþingið er stofnun sem leitar málamiðlana. Ef menn fallast ekki á forsendur málamiðlananna enda menn utan hópsins og án áhrifa,“ segir hún.

Hún bendir einnig á að margir ESB-andstæðingarnir hafi litla löngun til þess að taka þátt í þingstörfunum enda fengju þeir tæplega að komast til teljandi áhrifa hvort sem er.

„Formenn stóru flokkahópanna í Evrópuþinginu þora ekki að taka áhættuna á því að jaðarflokkarnir fari að tefla öllu í tvísýnu. Þess vegna eru áhrif þeirra oft takmörkuð við það að halda ræður og beina fyrirspurnum til framkvæmdastjórnarinnar,“ segir hún.

Maja Kluger Rasmussen bendir hins vegar á að alls ekki megi vanmeta þau áhrif sem flokkar ESB-andstæðinga hafi á stjórnmál í sínum heimalöndum þar sem þeim hefur tekist að beita stöðugt vaxandi þrýstingi á ráðandi flokka nær miðju stjórnmálanna í löndum eins og Danmörku, Hollandi, Þýskalandi, finnlandi og síðast en ekki síst Bretlandi. Af þeim sökum eru efasemdarraddir í garð valdsins í Brussel nú háværari en áður innan hinna áhrifameiri flokkanna.

„Þeir hafa takmörkuð áhrif í Evrópuþinginu en þeir geta átt þátt í því að grafa undan lögmæti ESB innan hvers aðildarríkis og á þann hátt ná þeir með óbeinum hætti að halda aftur af þróun Evrópusamstarfsins,“ segir Maja Kluger Rasmussen.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Krónunni verður aldrei fleytt aftur. Meðan hér verður króna verða höft
Íslenska krónan verður í einhvers konar höftum um alla framtíð. Meðan hún er gjaldmiðill Íslendinga verða höft óhjákvæmileg. Frá sjónarhóli...
Yfirlit úrslita í kosningum til Evrópuþings: EPP og S&D stærstir. Jaðarflokkar sóttu á en áhrif þeirra óviss
EPP, flokkur Evrópuþingmanna, þar sem m.a. er að finna kristilega demókrata og marga aðra hægrimenn í Evrópu, er stærsti þingmannahópurinn...