Viðræðum EFTA og ESB um þróunarsjóði slitið vegna ágreinings. Einnig rætt um tollkvóta á sjávarafurðir

Share Button

Bygging Evrópuþingsins í Strassborg

Bygging Evrópuþingsins í Strassborg

Slitnað hefur upp úr viðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um þau framlög sem EFTA-ríkin eiga að greiða í þróunarsjóð EFTA næstu ár. Noregur hefur greitt um 95% framlagsins en nú ber svo mikið í milli í viðræðum aðila að viðræðum hefur verið slitið.

Eins og sagt var frá á Evrópublogginu hófust viðræðurnar þann 22. janúar en samningur sem gilt hafði frá árinu 2009 rann út þann 30. apríl sl.

Greiðslan í Þróunarsjóðinn er nokkurs konar endurgjald EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Lichtenstein, fyrir EES-samninginn. Þau hafa greitt um einn milljarð evra, eða meira en 150 milljarða króna í sjóðina frá 2009. Noregur greiðir um 95% framlags EFTA-ríkjanna. Framlögum í þróunarsjóðinn er farið til verkefna sem að auka efnahagslegan og félagslegan jöfnuð innan Evrópu. (European Economic Area Financial Mechanism). Auk þess að greiða mestallt framlag EFTA-ríkjanna í sjóðinn greiðir Noregur litlu lægri fjárhæð, um 800 milljónir evra, samkvæmt sérstökum samningi, sem eingöngu styður nýjustu 12 aðildarríki ESB til verkefna á sviði kolefnisbindingar og nýsköpunar innan græna hagkerfisins og fleiri atriða.

Norskir fjölmiðlar segja frá því í gær að viðræðum hafi verið slitið síðastliðinn föstudag. Í Aftenposten er haft eftir samningamönnum Noregs að of mikið beri á milli Noregs og ESB og kröfur ESB um framlag í sjóðinn séu of miklar til þess að hægt sé að brúa bilið.

„Það eru ólík viðhorf uppi varðandi umfang þesara framlaga. Við þurfum þess vegna að skapa rými fyrir óformlegar samræður sem geta skapað grundvöll fyrir frekari viðræðum, segir Atle Leikvoll, sendiherra Noregs hjá ESB, í samtali við Aftenposten en hann leiðir samninganefnd Norðmanna í málinu.

Aftenposten getur þess að auk Noregs taki fulltrúar hinna EFTA-ríkjanna tveggja, sem eiga aðild að EES, Íslands og Lichtenstein, þátt í viðræðunum við Evrópusambandið en að Noregur greiði allan þorra framlags EFTA-ríkjanna í þróunarsjóðina.

Einnig kemur fram að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hafi áður lýst því yfir að ESB hafi gert kröfu um „umtalsverða upphæð“ frá EFTA-ríkjunum, og að kröfurnar feli í sér talsverða hækkun frá þeirri upphæð greidd hefur verið síðustu ár, samkvæmt samningnum frá 2009 sem nú er runninn úr gildi.

Aftenposten segir að í framhaldi af reglulegum fundi í EES-ráðinu í síðustu viku hafi það kvistast út í kringum samninganefndina í Brussel að ESB krefjist nú allt að því tvöfalt hærra framlags en áður.

Atle Leikvoll, sendiherra, vill hins vegar ekki tjá sig um þær fjárhæðir sem um teflir. „Það ber mikið á milli,“ sagði hann einungis um það atriði. „Við nýtum þann tíma sem við þurfum til þess að landa þessu. Þetta tekur tíma.“

Vidar Helgesen, evrópuráðherra Norðmanna, sagði eftir EES-fundinn í síðustu viku að Norðmenn teldu enga ástæðu til að auka framlög sín í sjóðinn á sama tíma og ESB væri að draga úr eigin framlögum.

Engar upplýsingar um gang viðræðnanna eða síðustu þróun í þeim málum er hins vegar að finna á vef utanríkisráðuneytisins. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 13. maí um störf á fundi EES-ráðsins er í engu vikið að þessum samningaviðræðum.

Þar segir:

„Fulltrúi Evrópusambandsins lýsti ánægju sinni með stefnu Noregs og Íslands í málefnum EES. EES samningurinn væri farsæl saga og sú nána samvinna sem í henni fælist væri styrkleiki til framtíðar. Þá hefði ESB kynnt sér nýsamþykkta Evrópustefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og liti hana jákvæðum augum.“

Síðan er eftirfarandi haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra:

Capture

„Fundurinn var árangursríkur, við ræddum um þau tækifæri og þær áskoranir sem unnið er að milli landanna og sambandsins í tengslum við EES samninginn. Það er áríðandi halda uppi og kynna mikilvægi EES samningsins sem hefur reynst farsæll. Við höfum nýtt okkur frelsi hans til að gera fríverslunarsamninga á okkar forsendum og sem EFTA ríki, jafnframt því að vera hluti af innri markaði ESB og eiga möguleika á því að sækja menntun og njóta ferðafrelsis innan sambandsins. Aðildin að EES veitir okkur bæði sérstöðu og frelsi til athafna,“

Aftenposten greinir frá því að í þessum viðræðum sé ennfremur verið að ræða möguleika á auknum markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir.

Þannig að samkvæmt þessari frétt Aftenposten eru bein tengsl milli framlagsins til þróunarsjóðsins sem hefur það að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði í Evrópu og markaðsaðgangi Íslendinga og Norðmanna fyrir sjávarafurðir á innri markaði ESB.

„Það liggja fyrir tillögur um það hvernig hægt væri að vinna úr og þróa tollkvóta á ýmis konar sjávarafurðir,“ segir Leikvoll við Aftenposten. Í því sambandi virðast norska ríkisstjórnin tilbúin að slaka á verndartollum gagnvart innflutningi á ostum og blómum í óþökk þarlendra hagsmunaaðila.

Share Button

Skyld blogg
ESB undirbýr að slaka á kröfum um vegabréfaáritanir til landa utan Schengen
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði í gær fram frumvarp um að endurskoða reglur ESB um vegabréfsáritanir íbúa ríkja utan ESB. Markmiðið er...
Tillaga Gunnars Braga komin fram: Aðildarumsókn ekki byggð á sannfæringu þeirra sem samþykktu
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki...
Viðræður í kyrrþey um endurnýjaða styrki Íslands, Noregs og Liechtenstein til ríkja ESB
22. janúar sl. hófust viðræður milli Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um endurnýjun á samningi...