Alþingi slitið, ekkert sumarþing, málatilbúnaður ríkisstjórnar að engu orðinn

Share Button

phota4Alþingi hefur verið slitið, sumarþing verður ekki haldið og nýtt þing verður sett þann 9. september. Það felur í sér að allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í tengslum við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu án þess að standa við kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins, er að engu orðinn og ljóst að tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að slíta formlega aðildarviðræðum Íslands og ESB hefur mistekist – í þessari atrennu að minnsta kosti.

Staða málsins er nú hin sama og var áður en tillagan var lögð fram þann 21. febrúar sl. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar slá úr og í þegar spurt er hvort tillagan verði lögð fram aftur á næsta þingi. Strax og tillaga ráðherrans var lögð fram vakti athygli hve illa var á málinu haldið og kallaði allur málatilbúnaður ráðherrans á hörð viðbrögð. Í greinargerð með tillögunni var að finna aðdróttanir í garð þeirra þingmanna, sem samþykkt höfðu aðildarumsóknina, um að þeir hefðu greitt atkvæði gegn samvisku sinni.

Á þessum tíma var skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands nýlega komin fram og umfjöllun um hana á Alþingi og í þjóðfélaginu var rétt að hefjast. Rúmur mánuður var í að Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands lyki við skýrslu sína fyrir aðila vinnumarkaðarins.

Viðbrögð í þjóðfélaginu við tillögu ráðherrans voru hörð, ekki síst meðal fólks sem kosið hafði Sjálfstæðisflokkinn í Alþingiskosningunum síðasta vor vegna afdráttarlausra yfirlýsinga forystumanna flokksins um að ákvörðun um framhald aðildarviðræðna ætti að taka í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki á Alþingi.

Efnt var til undirskriftarsöfnunar á vefsíðunni thjod.is að undirlagi Já Íslands. Strax þann 26. febrúar, um það bil þremur sólarhringum eftir að söfnunin hófst, höfðu meira en 30.000 Íslendingar skrifað þar undir þessa áskorun:

VIÐ UNDIRRITUÐ…
…skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:
Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er stærri og mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða svarinu.

Alþingi ber að sýna þjóðinni þá virðingu að leggja framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins í dóm allra Íslendinga.

Alls urðu undirskriftir á thjod.is 53.555 og var áskorunin afhent forseta Alþingis þann 2. maí.

Eftir að tillagan kom fram voru einnig boðaðir mótmælafundir á Austurvelli til þess að mótmæla vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og svikum á afdráttarlausum kosningalofoforðum um að þjóðin ætti að fá að ráða framhaldi málsins.

Fyrsti fundurinn var haldinn þann 1. mars og áætlaði lögreglan að þar hefðu um átta þúsund manns safnast saman til þess að lýsa andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar. Alls voru átta fundir haldnir og mættu á þá á bilinu 1.500 – 5.000 manns.

Einnig varð atburðarásin í kringum tillögu ríkisstjórnarinnar um slit aðildarviðræðna og svik forystu Sjálfstæðisflokksins á kosningaloforðum til þess að hópur fólks, sem lengi hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og unnið ýmis trúnaðarstörf á vettvangi hans, fór að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks. Sú vinna stendur enn yfir en vinnuheiti flokksins er Viðreisn.

Flest bendir einnig til þess að þessi atburðarás, sem hófst með því að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu sína að kvöldi föstudagsins 21. febrúar, hafi orðið til þess að auka stuðning meðal landsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Könnun sem MMR gerði í aprílmánuði bendir til þess að síðasta árið hafi þeim sem segjast fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið fjölgað úr 33,5% í apríl 2013 í 37,3% í apríl á þessu ári. Þeim sem eru óákveðnir hefur fækkað að sama skapi.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Af hverju tala þeir ekki skýrt og útiloka afgreiðslu tillögu Gunnars Braga á sumarþingi?
Svo virðist sem í dag hafi fyrst hafist af alvöru meðferð utanríkismálanefndar Aþingis á tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn...
Tillaga Gunnars Braga verður látin daga uppi á Alþingi í vor
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokkinn, hefur gefið sterklega til kynna í fjölmiðlum í dag að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að...