ESB nær enn betri árangri við að draga úr kolefnisútblæstri fyrir 2020 en Kyoto-bókun gerði ráð fyrir

Share Button

Flag of European UnionEvrópusambandið mun ná betri árangri en að var stefnt og Kyoto-bókun loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir í því að draga úr kolefnisútblæstri fyrir árið 2020.

Þetta kom fram í skýrslu sem lögð var fyrir fund umhverfisráðherra aðildarríkja ESB í Aþenu í gær.

„Evrópa mun fara fram úr væntingum árið 2020,“ sagði Hans Bruyninckx, framkvæmdastjóri Umhverfismálastofnunar Evrópu, eftir að hafa kynnt ráðherrunum og embættismönnum framkvæmdastjórnar ESB niðurstöður stofnunarinnar.

ESB hefur með einhliða skuldbindingu á grundvelli Kyoto-bókunar Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir að fyrir 2020 eigi ríki sambandsins að draga úr útblæstri um 20% miðað við útblástur ársins 1990.

Markmiðinu hefur þegar að mestu verið náð og talið er ljóst að farið verði talsvert langt fram úr því þegar 2020 rennur upp. „Nú er talið að árið 2020 verði heildarútblástur 24,5% undir viðmiðunarárinu,“ segir í nýlegri skýrslu til Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfissinnar brugðust við fréttum af ráðherrafundinum með því að fagna árangrinum en segja jafnframt að hann leysti ESB ekki undan ábyrgð á því að setja sér enn metnaðarfyllri markmið. „Án markmiða og nýrrar stefnumótunar höfum við enga tryggingu fyrir því að hlutirnir fari ekki í fyrra horf og að útblástur fari að aukast á ný,“ segir Wendel Trio talsmaður fjölþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna CAN Europe.

Ráðherrarnir hittust í Aþenu til að undirbúa framhaldsfund Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í næsta mánuði en þar er ætlunin að aðildarríki Kyoto-bókunarinnar kynni þann árangur sem þau hafa náð í að draga úr útblæstri og vinni jafnframt að því að endurskoða fyrri markmið sín og áætlanir.

Trio segist engar væntingar hafa um að ESB muni fallast á ný markmið á fundinum í júní en hvatti sambandið til þess að vinna áfram að því að setja markið enn hærra og auka þrýsting á þær þjóðir sem bera ábyrgð á mestum útblæstri og hafa dregið lappirnar þegar kemur að aðgerðum til úrbóta.

Bæði vísindamenn og umhverfissinnar horfa mjög til áframhaldandi forystu Evrópusambandsins um að baráttu fyrir þeim aðgerðum sem grípa þarf til vegna loftslagsbreytinga til þess að koma í veg fyrir að hitastig andrúmsloftsins rísi enn um tvær gráður. Það er sú viðmiðun sem vísindanefndir SÞ telja nauðsynlegt að miða við til þess að vinna gegn auknum þurrki, flóðum og hækkun sjávarmáls á næstu áratugum.

Fyrir liggja tillögur framkvæmdastjórnar ESB um að dregið verði úr kolefnisútblæstri um 40% fyrir árið 2030 en aðildarríki ESB eru ekki á einu máli um þau markmið. „Aðildarríkin skiptast í þrjá hópa, sagði Yannis Maniatis, orku- og umhverfisráðherra Grikklands. Sum aðildarríkin styðji tillögur framkmvæmdastjórnarinnar en önnur tregðist við að setja nokkur ný markmið. Þriðji hópurinn vill jafnvel ganga enn lengra en framkvæmdastjórnin.

ESB hefur lýst því yfir að vinnu við að setja ESB markmið í loftslagsmálum fyrir árið 2030 muni ljúka fyrir októberbyrjun.

Sjá frétt Euractiv.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Krónunni verður aldrei fleytt aftur. Meðan hér verður króna verða höft
Íslenska krónan verður í einhvers konar höftum um alla framtíð. Meðan hún er gjaldmiðill Íslendinga verða höft óhjákvæmileg. Frá sjónarhóli...
Yfirlit úrslita í kosningum til Evrópuþings: EPP og S&D stærstir. Jaðarflokkar sóttu á en áhrif þeirra óviss
EPP, flokkur Evrópuþingmanna, þar sem m.a. er að finna kristilega demókrata og marga aðra hægrimenn í Evrópu, er stærsti þingmannahópurinn...