Ný könnun: Evrópubúar hafa orðið jákvæðari í garð ESB síðasta árið þótt kreppan sé ekki gleymd

Share Button
PG-2014-05-12-EU-0-03

Taflan, sem er af vef Pew Research, sýnir hvernig viðhorf íbúa sjö ríkja í Evrópu til ESB hafa breyst síðasta árið

Stuðningur við Evrópusambandið virðist vera að aukast rétt áður en gengið til Evrópuþingskosninganna 22. maí samkvæmt nýrri og yfirgripsmikilli skoðanakönnun sem alþjóðlega rannsóknastofnunin Pew Research Center birti í gær og gerð var meðal íbúa sjö af stærstu ríkja Evrópu.

Eftir að mjög dró úr stuðningi við Evrópusambandið í kjölfar evrukreppunnar svokölluðu er stuðningur við Evrópusambandið að aukast í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Og trú almennings á því að efnahagslegur samruni í Evrópu komi sér vel fyrir löndin í álfunni er að aukast í Bretlandi, Póllandi og Þýskalandi.

Kjósendur í Evrópu telja hins vegar að raddir almennings hafi ekki nægilegt væri í Brussel, þar sem stofnanir Evrópusambandsins er að finna. Meirihluti fólks í flestum ríkjunum kvartar undan því að ESB skilji ekki þarfir þeirra, sé óþarflega íhlutunarsamt og ekki nægilega skilvirkt. Og lítill áhugi er á því hjá almenningi að veita ESB frekari völd á sviði efnahagsmála.

PG-2014-05-12-EU-0-05

Trúa enn á hugsjónina um ESB en eru samt pirraðir

En í flestum ríkjunum sem könnunin náði til vantar samt talsvert á það enn að sú einkunn sem ESB fær hjá almenningi sé jafngóð og var áður en kreppan skall á.

Ítalir eru í vaxandi mæli gagnrýnir á stofnanir sambandsins og meðal þeirra eru skiptar skoðanir um hvort áfram eigi að nota evru fyrir gjaldmiðil landsins. Grikkir, sem fóru verst út úr kreppunni, eru enn afar tortryggnir á ýmis atriði Evrópusamstarfsins.

Djúpstæður pólitískur ágreiningur setur mark sitt á baráttuna vegna Evrópuþingskosninganna.

Í Bretlandi, Ítalíu, Póllandi og Þýskalandi eru hægri sinnaðir kjósendur yfirleitt harðari í dómum um ESB en aðrir. Í Grikklandi og á Spáni, eru hörðustu gagnrýnendur sambandsins hins vegar vinstri sinnaðir.

Og áhyggjur af innflytjendamálum auka á óánægju almennings. Meirihluti fólks í Ítalíu, grikklandi, Frakklandi og Bretlandi lýsa vilja til þess að draga úr straumi innflytjenda, meðal annars vegna þess að margir telja að innflytjendur muni ekki aðlagast samfélaginu og að þeir taki störf frá því fólki sem fyrir er og sækist auk þess eftir greiðslum úr velferðarkerfinu.

Þessar niðurstöður eru nokkrar þeirra sem má lesa út úr könnun sem Pew Research Center gerði meðal 7.022 karla og kvenna í sjö aðildarríkjum Evrópusambandsins – Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni og Bretlandi. Könnunin var gerð frá 17. mars til 9. apríl.

Evrukreppan se hófst árið 2008 varð til þess að ímynd ESB varð fyrir miklu áfalli. Frá árinu 2007 til 2013 fækkaði þeim sem höfðu jákvæða skoðun á ESB um 34 prósentustig á Spáni, um 21 prósentustig í Frakklandi og um 20 prósentustig á Ítalíu.

En þessar skoðanir virðast farnar að færast nær fyrra horfi síðasta árið, segir Pew. Miðgildi þeirrar einkunnar sem íbúar landanna sjö gefa ESB hefur hækkað úr 46% Í 52% síðasta árið. Mest er hækkunin í Frakklandi, eða 13 prósentustig. Miðgildi þeirra sem telja að efnahagslegur samruni Evrópuríkja styrki efnahagslífið í heimalandi viðkomandi hefur einnig hækkað úr 26% í 38% og er hækkunin hvað það varðar mest í Bretlandi, eða 15 prósentustig, og næstmest í Póllandi, 12 prósentustig.

Athygli vekur að nú hafa 52% Breta jákvæð viðhorf gagnvart ESB og þeim sem telja að sambandið hafi jákvæð efnahaagsleg áhrif á Bretland hefur fjölgað um 15 prósentustig á einu ári.

Í samræmi við það styðja nú mun fleiri Bretar en áður að landið haldi áfram fullri aðild að Evrópusambandinu. 50% Breta vilja nú halda áfram innan ESB en 41% eru andvígir. Á síðasta ári voru það jafnstórir hópar – 46% í hvorum – sem vildu áframhaldi aðild og úrsögn.

Stuðningur við evruna, hinn sameiginlega gjaldmiðil 17 Evrópuríkja, er mikill í löndunum sjö; afgerandi meirihluti fólks í Þýskalandi (72%), Grikklandi (69%), Spáni (68%) og Frakklandi (64%) vilja halda í evruna sem gjaldmiðil. Eingöngu Ítalir gæla við þá hugmynd að kasta frá sér evrunni en 44% svaenda þar segjast vilja taka upp líruna á ný. Evran er ekki notuð í hinum ríkjunum tveimur sem könnunin náði til, Póllandi og Bretlandi.

En helstu stofnanir Evrópusambandsins njóta ekki sama trausts og sambandið sjálft, efnahagslegi samruninn og evran. Miðgildið er 36% varðandi þann fjölda sem hefur jákvætt álit á Evrópuþinginu. Hvað varðar jákvætt álit á framkvæmdastjórn ESB er miðgildi niðurstaðna úr ríkjunum sjö 34% og Seðlabanki Evrópu er í enn minni metum hjá Evrópubúum því miðgildið hvað hans jákvæðu ímynd varðar er einungis 30%. Pólverjar hafa mestar mætur á Evrópusambandinu sjálfu og öllum stofnunum þess en Grikkir eru gagnrýnastir.

Og meirihluti íbúa í öllum ríkjunum sjö telur að þeir sjálfir hafi lítið að segja innan ESB. Þau viðhorf eru sterkust meðal Ítala (81%) og Grikkja (80%).

Miðgildi yfir hlutfall svarenda í löndunum sjö sem segja að ESB skilji ekki þarfir þeirra er 65% og munar þar mest um 85% svarenda í Grikklandi Greece og 77% á Ítalíu.

Ennfremur segja 63% að ESB sé afskiptsamt og 57% telja að sambandið sé óskilvirkt en þeirrar skoðunar eru meira en 50% í fjórum af löndunum sjö.

En Pew Research Organisation, sem er virt bandarísk rannsóknastofnun, segir að þrátt fyrir þessar efasemdir eigi Evrópuhugsjónin sér enn sterkar rætur í hjörtum Evrópubúa og þau metnaðarfullu markmið sem bjuggu að baki stofnun Efnahagsbandalags Evrópu fyrir meira en hálfri öld eigi sér ennþá mikinn hljómgrunn. Sjö af hverjum tíu (miðgildi niðurstaðna í ríkjunum sjö) telja að Evrópusambandið stuðli að friði í heiminum. 51% telja að ESB sé stórveldi á heimsvísu og eru Frakkar (59%, Grikkir (57%) og Spánverjar (57%) helstu stuðningsmenn þess viðhorfs.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Krónunni verður aldrei fleytt aftur. Meðan hér verður króna verða höft
Íslenska krónan verður í einhvers konar höftum um alla framtíð. Meðan hún er gjaldmiðill Íslendinga verða höft óhjákvæmileg. Frá sjónarhóli...
Yfirlit úrslita í kosningum til Evrópuþings: EPP og S&D stærstir. Jaðarflokkar sóttu á en áhrif þeirra óviss
EPP, flokkur Evrópuþingmanna, þar sem m.a. er að finna kristilega demókrata og marga aðra hægrimenn í Evrópu, er stærsti þingmannahópurinn...