Tillaga Gunnars Braga komin fram: Aðildarumsókn ekki byggð á sannfæringu þeirra sem samþykktu

Share Button

gunnarbragi„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.“

Þetta er texti tillögu utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Tillagan var lögð fram á Alþingi í dag og birt á vef þingsins um klukkan 19 í kvöld.

Henni fylgir greinargerð sem hefst á þessum orðum:

„Með ályktun Alþingis sem samþykkt var 16. júlí 2009 var þáverandi ríkisstjórn falið að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Allar götur síðan hefur það ferli sem hrundið var af stað með þessari þingsályktun sætt þungri gagnrýni. Langur vegur er frá því að um það hafi ríkt sú sátt og sá stuðningur sem almennt er talinn nauðsynlegur grundvöllur ferlis af því tagi sem hér um ræðir.

Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.“

Sem sagt: utanríkisráðherra – sem hefur samþykki þingflokka beggja stjórnarflokkanna fyrir framlagningu tillögunnar – telur við hæfi að styðja tillöguna þeim rökum að ákvörðunin um að leggja fram aðildarumsókn að Evrópusambandinu 16. júlí 2009 hafi ekki byggst á raunverulegri sannfæringu þeirra 33ja þingmanna sem greiddu þeirri tillögu atkvæði heldur, ja, einhverju öðru.

Aðeins einn þingmaður er nú í þingliði stjórnarflokkanna sem greiddi atkvæði með aðildarumsókninni sumarið 2009.

Það er Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins: „Ég hefði kosið að niðurstaðan væri á annan veg. En þingflokkur ákveður með þessum hætti að draga umsóknina til baka og ég er í þingliði Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ragnheiður, í samtali við Vísi í dag. Hún er ekki spurð um hvernig hún hyggist greiða atkvæði um málið þegar þar að kemur.

Eins og lög gera ráð fyrir þarf þingsályktunartillaga þessi tvær umræður á Alþingi áður en endanlega verða greidd um hana atkvæði og mun utanríkismálanefnd fjalla um hana milli fyrri og síðari umræðu.

Í utanríkismálanefnd eiga sæti: Birgir Ármannsson, formaður, Ásmundur Einar Daðason, 1. varaformaður, Vilhjálmur Bjarnason, 2. varaformaður, sem var annar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem lýsti andstöðu við það að slíta aðildarviðræðunum í umræðum um skýrslu Hagfræðistofunar. Einnig sitja í nefndinni Frosti Sigurjónsson, Framsóknarflokki, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki og stjórnarandstæðingarnir Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, Árni Þór Sigurðsson, VG, og Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu. Birgitta Jónsdóttir, Pírati, er áheyrnarfulltrúi, en hún lýsti því yfir við umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar að líklega væri best að hætta viðræðunum.

Meirihluti utantíkismálanefndar mun hafa á valdi sínu að ákveða hversu ítarlega meðferð málið fær milli umræðna; þar á meðal hvort og að hve miklu leyti leitað verður álits ýmissa hagsmunaaðila og samtaka í þjóðfélaginu og hvort nefndin telur ástæðu til þess að gera breytingar á tillögugreininni.

Rétt er að taka fram að auk þess sem í greinargerðinni er m.a vísað í atriði úr skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, sem talin eru styðja tillöguna, eru tvö fylgiskjöl lögð fram með tillögu utanríkisráðherra, henni til frekari stuðnings.

Annars vegar er um það að ræða niðurstöður og tillögur nefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þar er um að ræða nefnd sem starfaði undir forsæti Björns Bjarnasonar og lauk störfum á árinu 2007 – áður en Evrópusambandið lauk við að samþykkja og afgreiða Lissabon-sáttmálann. Birtur er tengill í þingskjalinu sem vísar á skýrslu þessarar nefndar, sem taldi hagsmunum Íslands í samskiptum við Evrópusambandið vel borgið með EES-samningnum.

Hitt fylgiskjalið, sem styður mál Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, er skýrsla frá utanríkismálanefnd Alþingis um fyrirkomulag á þinglegri meðferð EES-mála. Sú skýrsla var unnin samkvæmt beiðni forseta Alþingis frá 13. febrúar árið 2008.

Share Button

Skyld blogg
Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár
„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka...
Alþingi slitið, ekkert sumarþing, málatilbúnaður ríkisstjórnar að engu orðinn
Alþingi hefur verið slitið, sumarþing verður ekki haldið og nýtt þing verður sett þann 9. september. Það felur í sér...
Af hverju tala þeir ekki skýrt og útiloka afgreiðslu tillögu Gunnars Braga á sumarþingi?
Svo virðist sem í dag hafi fyrst hafist af alvöru meðferð utanríkismálanefndar Aþingis á tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn...