Juncker vill ljúka viðræðum ESB við Ísland – en nýjar viðræður verða ekki hafnar næstu fimm ár

Share Button

photo 5„Í tíð minni sem for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verður yf­ir­stand­andi viðræðum haldið áfram og þurfa rík­in á vest­an­verðum Balk­anskaga sér­stak­lega að taka mið af áhersl­um Evr­ópu­sam­bands­ins, en eng­in frek­ari stækk­un sam­bands­ins mun eiga sér stað næstu fimm árin,“ sagði Jean-Claude Juncker, verðandi for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evrópusambandsins, í ræðu sem hann flutti í Evrópuþinginu í dag en þar lýsti hann þeim áherslum sem hann hyggst starfa eftir meðan á kjörtímabili hans stendur, en því lýkur á árinu 2019.

Þessi yfirlýsing setur Evrópumálin enn einu sinni á dagskrá í íslenskum stjórnmálum og veitir skýra vísbendingu um það hversu mikið er í húfi að ríkisstjórnin standi án frekari tafa við ótvíræð kosningaloforð sín um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands að ESB. Ljóst má vera að vilji Junckers stendur til þess að lokið verði við þær viðræður.

Á ensku hljómar yfirlýsing Junckers svo:

Under my Presidency of the Commission, ongoing negotiations will continue, and notably the Western Balkans will need to keep a European perspective, but no further enlargement will take place over the next five years. With countries in our Eastern neighbourhood such as Moldova or Ukraine, we need to step up close cooperation, association and partnership to further strengthen our economic and political ties.

Þessi yfirlýsing hefur mikla og augljósa þýðingu fyrir íslenska hagsmuni.

Nú er orðið ljósara en nokkru sinni fyrr hve gríðarlegu tjóni það mundi valda íslenskum hagsmunum og stöðu landsins á alþjóðlegum vettvangi ef núverandi ríkisstjórn lætur undan þrýstingi úr baklandi sínu um að stíga það ógæfuskref að slíta því aðildarferli, sem hófst með samþykkt Alþingis á aðildarumsókn þann 16. júlí 2009.

Í ljósi yfirlýsingar Junckers yrðu afleiðingarnar ennþá afdrifaríkari og skaðvænlegri en áður hefði verið talið.

Nú er staða málsins sú að gert hefur verið hlé á aðildarviðræðunum. Fyrir liggja loforð beggja ríkisstjórnarflokkanna um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu þar sem þjóðin muni taka ákvörðun um framhald aðildarviðræðnanna.

Stjórnarflokkarnir hafa með yfirlýsingum sínum í aðdraganda Alþingiskosninganna 2013 lýst því yfir að framhald málsins sé ekki lengur á borði Alþingis heldur muni þeir vísa ákvörðun um framhaldið til þjóðarinnar.

Tilraun ríkisstjórnarinnar, undir forystu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, til þess að svíkja þessi loforð og láta þingið samþykkja að draga aðildarumsóknina til baka var hrundið með samstilltu og markvissu átaki þjóðarinnar þar sem tæpur fjórðungur kosningabærra manna undirritaði yfirlýsingu til að mótmæla þeim áformum.

Á þeim tíma var ljóst að slit aðildarviðræðna mundu valda skaða á hagsmunum þjóðarinnar með því að ógilda í raun allt það starf sem farið hefur fram vegna viðræðnanna síðastliðin fimm ár.

Það er ljóst að aðildarviðræðurnar við Íslendinga eru meðal þeirra sem Evrópusambandið verður tilbúið til að ljúka á yfirstandandi kjörtímabili framkvæmdastjórnar Junckers. Það er fráleitt að túlka yfirlýsingu hana með nokkrum öðrum hætti enda er nú hlé á viðræðum Íslands við ESB. Viðræðunum hefur ekki verið slitið.

Það er jafnljóst að láti ríkisstjórnin undir þrýstingi fámenns en háværs hóps stuðningsmanna sinna um að hefja á ný það feigðarflan sem lagt var út í með framlagningu þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar á síðasta vetri verður ennþá meira í húfi en áður.

Ef sú leið verður farin yrði ekki aðeins ónýtt vinna síðustu fimm ára heldur um leið lokað til næstu fimm ára þeim dyrum sem Íslandi standa enn opnar og fela í sér möguleikann á að að leiða aðildarviðræðurnar til lykta án tafar og nýta aðildarferlið til þess að stíga þau einu raunhæfu skref sem bjóðast til þess að aflétta hér gjaldeyrishöftum og koma á opnum markaðsbúskap að hætti annarra vestrænna þjóða á Íslandi.

Það er því enn meira í húfi en fyrr fyrir íslenska hagsmuni að ríkisstjórnarflokkarnir dragi ekki frekar að standa við kosningaloforð sín um það að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin geti sjálf tekið ákvörðun um hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram eða ekki.

Share Button

Krónunni verður aldrei fleytt aftur. Meðan hér verður króna verða höft

Share Button

Íslenska krónan verður í einhvers konar höftum um alla framtíð. Meðan hún er gjaldmiðill Íslendinga verða höft óhjákvæmileg. Frá sjónarhóli atvinnulífsins er óhugsandi að krónan verði látin fljóta aftur líkt og á árunum 2001 til 2008.

Þetta staðhæfði Þorsteinn Víglundsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á morgunverðarfundi sem Evrópustofa efndi til í morgun um evruna, krónuna og höftin í samstarfi við SA, ASÍ og Samtök iðnaðarins.

Aðalræðumaður fundarins var dr. Roel Beetsma, prófessor í hagfræði við Háskólann í Amsterdam, sem flutti erindi um þá lærdóma sem Íslendingar gætu dregið af evrukreppunni varðandi spurninguna um aðild að evrópsku myntsamstarfi og evrusvæðinu.

Hann hvatti Íslendinga til þess að bíða ekki með að hefja hefja þá vinnu sem nauðsynleg væri til þess að geta gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. Upptaka evru mundi þjóna hagsmunum landsins til lengri tíma. Hún mundi stuðla að lægri verðbólgu og draga úr sveiflum og stuðla þannig að lægri vöxtum. Hann lagði áherslu á að evrusvæðið væri að vinna sig út úr tímabundnum erfiðleikum sem ætti rætur að rekja til vandamála einstakra ríkja. Miklar framfarir hafi orðið á evrusvæðinu og verið sé að innleiða nauðsynlegar breytingar á umhverfi peningamála sem tækju gildi á næstu árum. Íslendingar ættu ekki að láta þann tíma líða og bíða eftir því að nýtt kerfi yrði fullskapað heldur hefjast strax handa strax við að reyna að uppfylla Maastricht-skilyrðin og undirbúa efnahagslífið að öðru leyti fyrir inngöngu í Evrópska myntsamstarfið og evrusvæðið.

Dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, fór yfir hagsöu Íslands síðustu áratugi og stöðuga erfiðleika íslensks þjóðfélags við að aðlagast frjálsum markaðsbúskap. hann sagði að hagstjórnin hefði ávallt einkennst af því að verið væri að vinna sig upp úr síðustu kreppu sem hefði orðið vegna hruns gjaldmiðilsins. Þjóðfélagið hefði stöðugt verið sett í þá stöðu spekúlanta á gjaldeyrismarkaði, Gengi krónunnar hefði með reglubundnu millibili hrunið og áhrifin af gengisbreytingunum hefðu samstundis leitað beint út í verðlagið og valdið verðbólgu. Stöðugar sveiflur hefðu ávallt fylgt krónuhagkerfinu.

Hann rakti evran væri eina dæmið um það frá því að Íslendingar fengu fullveldi að stjórnvöld hefðu ekki viljað taka þátt í myntsamstarfi helstu viðskiptaþjóða. Ísland hefði bæði tekið þátt í sameiginlegu myntsvæði Norðurlandanna á fyrrihluta aldarinnar, það hefði síðan átt aðild að Bretton Woods samstarfinu og það hefði verið þátttakandi í myntsamstarfi Evrópuþjóða með fastgengisstefnu með tengingu við dönsku krónuna frá árinu 1989 til 2001 þegar krónunni var fleytt. Krónan hér á landi væri eina dæmið um gjaldmiðil þjóðar sem hefði færri en tvær milljónir íbúa sem hefði verið fleytt á rúmsjó alþjóðlegra fjármálamarkaða. Fullreynt væri með krónuna og þann skaða sem sveiflur á gengi hennar valdi íslensku þjóðfélagi. Evran og myntsamstarf við nágrannaþjóðir væri sjálfsagt framtíðarfyrirkomulag fyrir íslenskt þjóðfélag.

Í sama streng tók Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem fór yfir málin frá sjónarhorni launafólks og rakti að það losa launþega í landinu við það háa vaxtastig sem er fylgifiskur krónunnar væri eitt og sér ígildi gríðarlegrar og varanlegrar kaupmáttaraukningar.

Share Button

Yfirlit úrslita í kosningum til Evrópuþings: EPP og S&D stærstir. Jaðarflokkar sóttu á en áhrif þeirra óviss

Share Button
Skipting þingsæta milli flokkahópa á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í maí 2014.

Skipting þingsæta milli flokkahópa á Evrópuþinginu eftir kosningarnar í maí 2014. Mynd: Europaportalen.se

EPP, flokkur Evrópuþingmanna, þar sem m.a. er að finna kristilega demókrata og marga aðra hægrimenn í Evrópu, er stærsti þingmannahópurinn á Evrópuþinginu eftir kosningarnar, síðustu daga. Næststærsti hópurinn er skipaður sósíaldemókrötum.

Íhaldsmenn og kristilegir demókratar í EPP fengu 28% allra atkvæða, samkvæmt útreikningum, sem kynntir eru á sænsku vefsíðunni Europaportalen.se í dag og byggir á tölum frá öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins.

S&D, hópur sósíaldemókrata fékk 25% og heldur stöðu sinni sem næststærsti flokkahópurinn. Þá koma frjálslyndir þingmenn innan hópsins Alde, sem fengu um 9%, og síðan hópur græningja með tæp 7%. Hægrisinnaðir efasemdamenn um Evrópusambandið mynda hópinn ECR, þar sem breski Íhaldsflokkurinn er bæði langstærstur og -áhrifamestur og fá um 6%, svipað og vinstriflokkarnir sem mynda saman GUE-þingmennahópinn.

EPP, S&D og Alde tapa fylgi frá kosningunum 2009, en eins og fram er komið í fjölmiðlum hafa flokkar ESB-andstæðinga á bæði hægri og vinstri vængnum hlotið stóraukið fylgi.

Í störfum Evrópuþingsins hafa flestar ákvarðanir verið teknar í gegnum samkomulag og málamiðlanir milli EPP, S&D og Alde. Í kjölfar kosningaúrslitanna nú er búist við því, segir Europaportalen, að þessir stóru flokkahópar vinni enn þéttar saman en áður til þess að reyna að afstýra því að jaðarflokkarnir komist til áhrifa.

Göran von Sydow, fræðimaður við Svenska institutet för europapolitiska studier, telur að lagasetning á Evrópuþinginu kunni nú að verða tafsamari vegna þess að tilraunir til að ná samstöðu milli stóru hópanna þriggja verði tímafrekari en áður. Eins sé hætt við því að löggjöfinn verði útvatnaðri en ella.

Ennþá erfiðara geti svo orðið að ná meirihluta um mál þar sem stærstu hópar þingmanna til hægri og vinstri ná ekki samkomulagi. Það muni meðal annars eiga við um félagsleg  málefni, fyrirhugaðan fríverslunarsamning við Bandaríkin og loftslagsmálin.

„Það kann að vera að í þeim málum þar sem þeir eiga erfitt með að ná samstöðu stóru hópanna verði leitað samstarfs við hópana á jöðrunum, þess í stað,“ segir Göran von Sydow.

Í fjölmörgum löndum þýðir niðurstaðan það að ráðandi stjórnmálaflokkar tapa fylgi frá síðustu kosningum en ESB-andstæðingar á jöðrunum sækja í sig veðrið. Þjóðernissinnaðir flokkar eru stærstir á Evrópuþinginu meðal fulltrúa Breta, Dana og Frakka. Þjóðernissinnaði þingmannahópurinn EFD, þar sem bæði Danski þjóðarflokkurinn og hinn breski UKIP starfa, er nú mun fjölmennari en árið 2009.

Síðast en ekki síst er niðurstaðan sú að þingmönnum sem standa utan flokkahópa fjölgar frá því sem áður var. Þeir verða nú 41 talsins en voru 33. Þessir þingmenn eru oftar en ekki fulltrúar flokka sem eru andvígir ESB og innflytjendum. Þetta á meðal annars við þingmenn Front National í Frakklandi, sem sitja nú utan flokkahópa, en standa nú fyrir viðræðum við erlenda samherja um að mynda nýjan flokkahóp. Auk þessara þingmanna náðu kjöri 63 nýir Evrópuþingmenn fyrir hönd flokka sem ekki hafa áður átt fulltrúa á Evrópuþinginu.

Sænski stjórnmálafræðingurinn Göran von Sydow telur þó (líkt og danskir kollegar hans sem við sögðum frá á dögunum) að flokkar ESB-andstæðinga og þjóðernissinna muni hafa takmörkuð áhrif á Evrópuþinginu, hér eftir sem hingað til.

„Beinu áhrifin af þessu á lagasetningu og atkvæðagreiðslur verður að telja býsna lítil vegna þess að þessir flokkar ESB-andstæðinga eru sundurleitur hópur og þeim reynist erfitt að mynda hópa. Hingað til hafa þeir líka einkum nýtt sér Evrópuþingið sem vettvang til þess að koma á framfæri skilaboðum í sínum heimalöndum [um andstöðu við ESB],“ segir Göran von Sydow.

Hann bætir því við að þess séu fá dæmi að fulltrúar þessara flokka hafi átt frumkvæði að lagasetningu og að samstarf þeirra og samstaða standi veikum fótum. Þá hafi hinir bresku fulltrúar Ukip áberandi oft verið fjarrstaddir við kosningar innan þingsins.

Bráðabirgðatölur benda til þess að þátttaka Evrópubúa í kosningunum hafi verið 43,1%, og stóð nánast í stað en hún var 43,0% árið 2009. Það er í fyrsta skipti í sögu Evrópuþingsins sem þátttaka minnkar ekki milli kosninga. Að frátöldum þeim löndum (Belgíu og Lúxemborg) þar sem það er lagaleg skylda að taka þátt í kosningum, voru aðeins fjögur lönd þar sem þátttakan var meiri en 50%.

Hér á eftir er yfirlit yfir niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins í löndunum 28, miðað við fjölda Evrópuþingmanna.

Svíþjóð

Græningjar eru næststærsti flokkur Svíþjóðar á Evrópuþinginu, með 15,2% atkvæða. Pópúlistarnir í Sænskum demókrötum buðu fram í fyrsta skipti og fengu tvo menn kjörna og 9,8% atkvæða. Flokkur Femínista, sem einnig bauð nú fram í fyrsta skipti, fékk einn Evrópuþingmann og 5,3% atkvæða
Sósíaldemókratar fengu 24,5% atkvæða og sex fulltrúa eins og áður. Moderaterna, hægriflokkur Reinfeldt forsætisráðherra, fékk 13,5% og þrjá þingmenn en hafði fjóra áður. Pírataflokkurinn tapaði báðum þingmönnum sínum á Evrópuþinginu og fékk aðeins 2,2% atkvæða. Þjóðarflokkurinn fékk 9,9% og 2 þingmenn en hafði þrjá áður. Vinstri flokkurinn fékk rúm 6% og hefur einn þingmann eins og áður.

Danmörk

Danski þjóðarflokkurinn er flokkur hægri sinnaðra pópúlista og er nú orðinn stærsti flokkur Dana á Evrópuþinginu, fékk 26,5% atkvæða. “Mindre EU, mera Danmark” var slagorð Morten Messerschmidt, leiðtoga flokksins í kosningunum, og það sló í gegn hjá kjósendum. Sósíaldemókratar eru næststærsti flokkahópurinn þrátt fyrir að fá einungis 19% atkvæða. Kosningaþátttaka í Danmörku var nú þremur prósentustigum minni en árið 2009 eða 56,4%.

Finnland

Miðjuflokkarnir Samstöðuflokkurinn (22,6%)og Miðflokkurinn (19,7%) fengu hvor um sig þrjá af þrettán fulltrúum Finna á Evrópuþinginu. Þjóðernissinnarnir í flokki Sannra Finna eru þriðji stærsti flokkurinn með tæp 13% og tvo fulltrúa á Evrópuþinginu. Kosningaþátttaka jókst um tvö prósentustig og náði 41%.

Bretland

ESB-andstæðingarnir í hinum hægri sinnaða og þjóðernissinnaða flokki Ukip undir forystu Nigel Farage unnu stórsigur og fengu alls 27,5% atkvæða og eru stærsti breski flokkurinn á Evrópuþinginu næstu árin og eiga þar fleiri fulltrúa en bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn. Farage sagði að með þessu hefði hann fengið þann draum sinn uppfylltan að Upið yrði „þriðja stjórnmálaaflið“ í Bretlandi. ESB-sinnarnir í Frjálslynda demókrataflokknum undir forystu aðstoðarforsætisráðherrans Nick Clegg guldu afhroð og aðeins einn fulltrúi náði kjöri á Evrópuþingið fyrir hönd þess flokks. David Cameron, forsætisráðherra, sagði eftir kosningarnar að þjóðin hefði orðið fyrir vonbrigðum með ESB. Hann sagðist meðtaka skilaboðin og átta sig á hvað í þeim felist.

Þýskaland

Í Þýskalandi voru það tveir helstu stjórnmálaflokkar landsins sem urðu stærstir; Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar. Þar sem þýski stjórnlagadómstóllinn hafði fellt út gildi löggjöf með kröfum að lágmarksfylgi á landsvísu náðu fulltrúar fjölmargra smáflokka kjöri. Það á meðal annars við um nýnasista í NPD, Dýraverndunarflokkinn og Pírataflokkinn. Hver þessara þriggja fékk einn þingmann. ESB andstæðingar í AfD fengu sjö þingsæti.

Frakkland

Stærstu tíðindi kosninganna urðu í Frakklandi. Þar hlaut Front National, flokkur Marine Le Pen, 25% atkvæða og mest fylgi allra flokka, fleiri en hægri flokkurinn UMP (Chirac og Sarkozy) og Sósíalistaflokkur forsetans Francois Hollande, sem beið afhroð og varð að láta sér nægja tæp 14%. Forsætisráðherrann Manuel Valls líkti niðurstöðunni við „pólitískan jarðskjálfta.“

Ítalía

Forsætisráðherrann Matteo Renzis og flokkur hans, Sósíaldemókratar, unnu góðan sigur og fengu um 40%. Aðeins er mánuður þar til ríkisstjórn Renzis tekur við formennsku í ráðherraráði ESB fyrir hönd Ítala. Grínistinn Beppe Grillo og Fimmstjörnuhreyfingin, sem hann stofnaði, hlaut sterka kosningu og 21% atkvæða. Flokkur Silvios Berlusconis, Forza Italia, fékk lakari kosningu en nokkru sinni fyrr í sögu sinni.

Spánn

Partido Popular er íhaldsflokkur sem ræður ríkisstjórn Spánar og hlaut örlítið betri kosningu en höfuðandstæðingarnir í flokki Sósíalista. Spænskir smáflokkar gengu hins vegar sáttir frá borði og fengu samanlagt um 40% atkvæða í landinu. Meðal spænskra nýliða á Evrópuþinginu er flokkurinn Podemos (Við getum), sem er sprottinn upp úr mótmælaaðgerðum í kjölfar evru- og bankakreppunnar. Podemos fékk 8% atkvæða. Spænskir fjölmiðlar túlka úrslitin þannig að kjósendur vilji refsa stóru flokkunum tveimur fyrir kreppuna en annar þeirra tapaði átta en hinn níu sætum á Evrópuþinginu frá kosningunum 2009. Alfredo Pérez Rubalcaba, leiðtogi Sósíalista, sagði af sér eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir.

Pólland

ESB-andstæðingar í flokknum Lög og réttur og hin hægrisinnaða Borgarahreyfing, sem veitir ríkisstjórninni forystu, eru stærstu flokkar Póllands á Evrópuþinginu með 19 fulltrúa hvor. Öfgahægrimennirnir í Nowa Prawica, undir forsæti hins umdeilda Janusz Korwin-Mikke, eiga fjóra Evrópuþingmenn.

Rúmenía

Sósíaldemókratar eru langstærstir með 42,4% atkvæða og 18 Evrópuþingmenn og eiga einungis þrjár þjóðir fleiri fulltrúa í þingmannahópi S&D. Næststærstir urðu frjálslyndir og flokkur þeirra PNL. Þeir sitja í Alde-hópnum en hafa rætt um að skipta yfir til kristilegra demókrata og hægrimanna í EPP. Með því vill flokksleiðtoginn, Crin Antonescu, vinna gegn því að sósíalistar ráði of miklu um málefni Evrópu.

Holland

Flokkurinn PVV undir forystu Geert Wilders, andstæðings ESB og þeirra sem játa islam, fékk mun lakari útkomu en kannanir höfðu spáð og aðeins fjóra Evrópuþingmenn. Jafnmarga þingmenn fengu Evrópusinnarnir í hinum frjálslynda flokki D66 og kristilegir demókratar í CDA. Alls eiga tíu hollenskir flokkar fulltrúa á þinginu.

Belgía

Öftahægriflokkurinn Vlaams Belang hélt einu þingsæti, þrátt fyrir að kannanir hafi gefið annað til kynna. Hægrisinnaðir, flæmskir aðskilnaðarsinnar í N-VA eru stærsti flokkur landsins. Alls eiga flæmskir flokkar tólf fulltrúa á Evrópuþinginu en átta eru fulltrúar frönskumælandi og einn þýskumælandi.

Grikkland

Hinn vinstrisinnaði flokkur Syriza er stærstur grískra flokka á Evróuþinginu en leiðtogi hans, Alexis Tsipras, er meðal frambjóðenda til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB. Flokkurinn fékk sjö þingmenn kjörna, einum fleiri en Nýtt lýðræði, flokkur Samaras, forsætisráðherra. Nýnasistarnir alræmdu í Gullinni dögun fengu 9,4% atkvæða grískra kjósenda sem skilaði flokknum tveimur sætum á Evrópuþinginu.

Portúgal

Í Portúgal eru Sósíaldemókratar, sem sitja í stjórnarandstöðu, stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu með átta þingsæti, en kosningabandalag hægriflokkanna, sem fara með ríkisstjórnartaumana í landinu, fékk sjö þingmenn kjörna.

Tékkland

Kosningaþátttaka var aðeins 19,5%, langtum minni en nokkru sinni fyrr frá því landið fékk aðild að ESB. Þrír stærstu flokkar Tékka á Evrópuþinginu eru ANO, sem er nýstofnaður frjálslyndur flokkur, íhaldsflokkurinn TOP09, og sósíaldemókrataflokkurinn ČSSD. Hver þeirra fékk fjögur þingsæti. Kommúnistaflokkurinn KSČM fékk þrjú þingsæti og Svobodní, nýlega stofnaður flokkur ESB-andstæðinga, eitt.

Ungverjaland

Íhaldsmennirnir í ríkisstjórnarflokknum Fidesz fengu alls 12 af 21 fulltrúum landsins á Evrópuþinginu. Jobbik, flokkur hægriöfgamanna fékk nærri því 15% atkvæða og heldur sínum þremur Evrópuþingmönnum. Kosningaþátttaka var 29%.

Austurríki

Flokkarnir tveir, sem ávallt eiga sæti í ríkisstjórn landsins, hægriflokkurinn ÖVP og sósíaldemókrataflokkurinn SPÖ, eru stærstir með fimm þingmenn hvor. FPÖ, flokkur ESB-andstæðinga og innflytjanda, jók fylgi sitt um sjö prósent frá 2009 og fékk fjögur þingsæti. Græningjar bættu einnig við sig fylgi og fengu þrjá þingmenn en höfðu áður tvo.

Búlgaría

Hægriflokkurinn Gerb hefur nú sex Evrópuþingmenn innan sinna vébanda en þeir voru fimm áður. Fulltrúar öfgaþjóðernissinna í Ataka-flokknum náðu ekki kjöri.

Slóvakía

Slóvakar settu met. Aldrei og hvergi hefur þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins verið minni en þar nú. 13% Slóvaka komu á kjörstað. Sósíaldemókratar, sem stýra ríkisstjórninni, fengu flesta Evrópuþingmenn, eða fjóra, en þeir höfðu fimm áður.

Írland

Vinstriflokkurinn Independents hlaut óvænt 24% atkvæða og er stærsti flokkur landsins, stærri en hinn frjálslyndi Fianna Fáil og kristilegu demókratarnir í Fine Gael. Kosningaþátttaka var 51,6%.

Króatía

Þetta var í fyrsta skipti sem Króatar tóku þátt í Evrópuþingskosningum og niðurstaðan varð þá sú að 41% atkvæða féllu í skaut kosningabandalagi þriggja þjóðernissinnaðra hægriflokka. Kosningabandalag sósíaldemókrata og frjálslyndra fékk tæp 30% atkvæða og næstflesta þingmenn.

Litháen

Frálslyndir íhaldsmenn í TS-LKD eru stærsti flokkurinn en aðeins með 18% atkvæða. Sósíaldemókratar guldu afhroð og fengu 17%. Kosningaþátttaka jókst um 23 prósentustig og náði 45%.

Lettland

Frjálslyndir íhaldsmenn í Vienotiba-flokknum fengu 46% atkvæða og eru langstærstir. Kosningaþátttaka var aðeins 30%, 20 prósentustigum minni en árið 2009.

Slóvenía

Mið-hægriflokkarnir SDS og NSi/SLS fengu flest atkvæði og samtals fimm af átta Evrópuþingmönnum landsins.

Kýpur

Mið-hægriflokkurinn Lýðræðisfylkingin fékk flest atkvæði og tvo þingmenn á Evrópuþinginu, líkt og kommúnistaflokkurinn Akel. Tveir flokkar sósíaldemókrata skiptu milli sín hinum þingsætunum tveimur.

Eistland

Tveir frjálslyndir flokkar fengu samtals þrjá af sex Evrópuþingmönnum landsins.

Luxemborg

Kosningaþátttaka var mest í Lúxemborg og Belgíu, eða um um 90%, enda er það lagaskylda í löndunum tveimur að mæta á kjörstað. Kristilegi þjóðarflokkurinn CSV/PCS fékk tæp 38% atkvæða. Græningjar eru næststærstir með 15%.

Malta

Kosningaþátttaka var 74,8%, meiri en í nokkru öðru landi þar sem ekki er skylt samkvæmt lögum að kjósa. Sósíaldemókratar fengu fjóra af sex Evrópuþingmönnum landsins.

Share Button

Jaðarflokkum spáð velgengni í Evrópuþingskosningum: Áhrifalitlir í Brussel en hafa áhrif á stjórnmál aðildarríkjanna

Share Button

Andstæðingum Evrópusamrunans á hægri og vinstri væng stjórnmálanna er spáð auknu fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hefjast í dag.

Um 200 af 751 þingsætum á Evrópuþinginu verða að líkindum skipuð þingmönnum úr þeim herbúðum ef marka má þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið síðustu daga. Á þinginu sem nú er að ljúka störfum starfa vinstrisinnaðir efasemdarmenn um ESB saman í flokkahópnum GUE/NGL. Hægra megin mynda þeir EFD-hópinn og eiga einnig sterk ítök í jaðarhópnum ECR, sem hefur byggst upp í kringum breska Íhaldsflokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn á einmitt aðild að alþjóðasamstarfsvettvangi ECR. Einnig er nokkuð um þingmenn utan sem eru eindregnir í andstöðu sinni við ESB, en telja sig ekki rúmast innan þessara flokkahópa. Þess er vænst að eftir kosningarnar nú verði þeir orðnir nógu margir til að mynda eigin flokkahóp.

Það eru ekki síst flokkarnir yst á hægri vængnum sem taldir eru eiga kosningasigra í vændum í kosningunum sem hefjast í dag; flokkar eins og Jobbik í Ungverjalandi, Front National undir stjórn Le Pen í Frakklandi, hollenski Frelsisflokkurinn (PVV) undir stjórn Gesrt Wilders og í Austurríki er líka Frelsisflokkur (FPÖ), sem kannanir gefa til kynna að muni sækja í sig veðrið. Til þessa hafa þessir flokkar ekki haft sameiginlegan flokkahóp á Evrópuþinginu.

Róttækum vinstri flokkum, sem gagnrýna ESB harðlega, er einnig spáð auknu fylgi, til dæmis SYRIZA í Grikklandi og Fimm stjörnuhreyfingu grínistans Beppe Grillo á Ítalíu.

Á danska vefmiðlinum Althinget.dk, en umfjöllun þaðan er nú endursögð hér, er rætt við Nathalie Brack, doktor við Oxford-háskóla, en hún hefur rannsakað jaðarflokkana á Evrópuþinginu. Hún telur að raunveruleg áhrif þessara jaðarafla muni ekki aukast þrátt fyrir aukið fylgi þeirra og að aukinn styrkur þeirra muni litlu breyta um dagleg störf Evrópuþingsins. Það mat skýrir hún með því að margir þessara hörðu ESB-andstæðinga séu hreinlega ekki tilbúnir til þess að beita sér af krafti í starfi stofnunar sem þeir eru á móti.

„Sérstaklega eru það flestir róttæku hægri mennirnir sem eru ekki komnir á Evrópuþingið til þess að starfa á sama hátt og venjulegir Evrópuþingmenn mundu gera. Þeirra grundvallarafstaða er sú að þeir vilji ekki gefa Evrópuþinginu lögmæti og þeir óttast að gera með því að taka virkan þátt í löggjafarstarfinu,“ segir hún og bætir við: „Þeir nýta áhrif sín á annan hátt en þeir vilja ekki samlagast Evrópuþinginu.“

Nathalie Brack telur að ESB-andstæðingunum við báða enda hins pólitíska litróft megi skipta upp í nokkra hópa.

Það eru tildæmis þeir sem eru fjarverandi og hafa svo mikinn ímugust á samkomunni að þeir reyna að koma þangað eins sjaldan og vera þar eins lítið og mögulegt er. Þetta hefur til dæmis átt við um fulltrúa Front National í Frakklandi.

Svo eru það „eldklerkarnir“, sem fyrst og fremst nýta stöðu sína í Evrópuþinginu til þess að segja öllum, sem heyra vilja, hversu spillt og ólýðræðislegt Evrópusambandið er. Sem dæmi um það mætti nefna UKIP frá Bretlandi og formann þess flokks, Nigel Farage, sem talið er að verði helsti sigurvegari kosninganna í Bretlandi. Hann er þekktur fyrir kjarnyrtar árásir sínar sem leiðtogum ESB svíður sárt undan.

Á jöðrunum er líka að finna pragmatista, sem eru sáttir við að vera eilíflega í andstöðuhlutverki en vilja gjarnan beita þeim áhrifum sem þeir geta á löggjöf ESB. Nathalie Brack telur að Jens Peter Bonde, fyrrverandi Evrópuþingmann dönsku Júníhreyfingarinnar, sé gott dæmi um slíkan mann sem á þrjátíu ára ferli í einbeittri andstöðu við Evrópusamrunann reyndi stöðugt að hafa áhrif á starfshættina og reglurnar

Að lokum eru það hinir félagsmótuðu, venjulega rosknir Evrópuþingmenn flokka eins og breska Íhaldsflokksins, sem vilja njóta stöðu venjulegra Evrópuþingmanna á sama hátt og aðrir þrátt fyrir að flokkarnir sem þeir eru fulltrúar fyrir séu í grundvallaratriðum í andstöðu við mikilvæga þætti þess alþjóðlega samstarfs sem fer fram innan sambandsins.

Fyrir utan eindregnu andstöðuna við Evrópusamrunan eiga þessir hópar það svo sameiginlegt að vegna hennar mæta þeir tregðu innanbúðarmanna til þess að hleypa þeim að borðinu ef þeir á annað borð sýna áhuga á nota tímann í Evrópuþinginu til þess að beita sér með þeim hætti.

„Það eru nokkur dæmi um það að Evrópuþingmenn sjálfir hafi dregið sig í hlé þegar þeir stóðu frammi fyrir því að geta orðið nefndarformenn eða talsmenn nefnda. Því réði vantrú þeirra á að hægt yrði að fá Evrópuþingið til þess að styðja hugmyndir sem ættu rót í andstöðu við ESB. Þeir nenna því ekki að setja mikinn tíma í eitthvað sem endar í glatkistunni eða tekur svo miklum breytingum í ferlinu að þeir munu á endanum greiða atkvæði á móti því sjálfir. Svo eru líka dæmi um hitt að menn eru settir svo kyrfilega á bás að varla nokkur maður vill vinna með þeim eða fela þeim ábyrgð af nokkru tagi,“ staðhæfir Nathalie Brack.

Maja Kluger Rasmussen, sem starfar við rannsóknir á Evrópuþinginu við London School of Economics, er sammála því að eins og Evrópuþingið starfar sé þessum andstæðingum og efasemdarmönnum ekki gefið mikið rými.

„Kerfið hvetur ekki til stöðugrar andstöðu vegna þess að Evrópuþingið er stofnun sem leitar málamiðlana. Ef menn fallast ekki á forsendur málamiðlananna enda menn utan hópsins og án áhrifa,“ segir hún.

Hún bendir einnig á að margir ESB-andstæðingarnir hafi litla löngun til þess að taka þátt í þingstörfunum enda fengju þeir tæplega að komast til teljandi áhrifa hvort sem er.

„Formenn stóru flokkahópanna í Evrópuþinginu þora ekki að taka áhættuna á því að jaðarflokkarnir fari að tefla öllu í tvísýnu. Þess vegna eru áhrif þeirra oft takmörkuð við það að halda ræður og beina fyrirspurnum til framkvæmdastjórnarinnar,“ segir hún.

Maja Kluger Rasmussen bendir hins vegar á að alls ekki megi vanmeta þau áhrif sem flokkar ESB-andstæðinga hafi á stjórnmál í sínum heimalöndum þar sem þeim hefur tekist að beita stöðugt vaxandi þrýstingi á ráðandi flokka nær miðju stjórnmálanna í löndum eins og Danmörku, Hollandi, Þýskalandi, finnlandi og síðast en ekki síst Bretlandi. Af þeim sökum eru efasemdarraddir í garð valdsins í Brussel nú háværari en áður innan hinna áhrifameiri flokkanna.

„Þeir hafa takmörkuð áhrif í Evrópuþinginu en þeir geta átt þátt í því að grafa undan lögmæti ESB innan hvers aðildarríkis og á þann hátt ná þeir með óbeinum hætti að halda aftur af þróun Evrópusamstarfsins,“ segir Maja Kluger Rasmussen.

Share Button

Viðræðum EFTA og ESB um þróunarsjóði slitið vegna ágreinings. Einnig rætt um tollkvóta á sjávarafurðir

Share Button

Bygging Evrópuþingsins í Strassborg

Bygging Evrópuþingsins í Strassborg

Slitnað hefur upp úr viðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um þau framlög sem EFTA-ríkin eiga að greiða í þróunarsjóð EFTA næstu ár. Noregur hefur greitt um 95% framlagsins en nú ber svo mikið í milli í viðræðum aðila að viðræðum hefur verið slitið.

Eins og sagt var frá á Evrópublogginu hófust viðræðurnar þann 22. janúar en samningur sem gilt hafði frá árinu 2009 rann út þann 30. apríl sl.

Greiðslan í Þróunarsjóðinn er nokkurs konar endurgjald EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Lichtenstein, fyrir EES-samninginn. Þau hafa greitt um einn milljarð evra, eða meira en 150 milljarða króna í sjóðina frá 2009. Noregur greiðir um 95% framlags EFTA-ríkjanna. Framlögum í þróunarsjóðinn er farið til verkefna sem að auka efnahagslegan og félagslegan jöfnuð innan Evrópu. (European Economic Area Financial Mechanism). Auk þess að greiða mestallt framlag EFTA-ríkjanna í sjóðinn greiðir Noregur litlu lægri fjárhæð, um 800 milljónir evra, samkvæmt sérstökum samningi, sem eingöngu styður nýjustu 12 aðildarríki ESB til verkefna á sviði kolefnisbindingar og nýsköpunar innan græna hagkerfisins og fleiri atriða.

Norskir fjölmiðlar segja frá því í gær að viðræðum hafi verið slitið síðastliðinn föstudag. Í Aftenposten er haft eftir samningamönnum Noregs að of mikið beri á milli Noregs og ESB og kröfur ESB um framlag í sjóðinn séu of miklar til þess að hægt sé að brúa bilið.

„Það eru ólík viðhorf uppi varðandi umfang þesara framlaga. Við þurfum þess vegna að skapa rými fyrir óformlegar samræður sem geta skapað grundvöll fyrir frekari viðræðum, segir Atle Leikvoll, sendiherra Noregs hjá ESB, í samtali við Aftenposten en hann leiðir samninganefnd Norðmanna í málinu.

Aftenposten getur þess að auk Noregs taki fulltrúar hinna EFTA-ríkjanna tveggja, sem eiga aðild að EES, Íslands og Lichtenstein, þátt í viðræðunum við Evrópusambandið en að Noregur greiði allan þorra framlags EFTA-ríkjanna í þróunarsjóðina.

Einnig kemur fram að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hafi áður lýst því yfir að ESB hafi gert kröfu um „umtalsverða upphæð“ frá EFTA-ríkjunum, og að kröfurnar feli í sér talsverða hækkun frá þeirri upphæð greidd hefur verið síðustu ár, samkvæmt samningnum frá 2009 sem nú er runninn úr gildi.

Aftenposten segir að í framhaldi af reglulegum fundi í EES-ráðinu í síðustu viku hafi það kvistast út í kringum samninganefndina í Brussel að ESB krefjist nú allt að því tvöfalt hærra framlags en áður.

Atle Leikvoll, sendiherra, vill hins vegar ekki tjá sig um þær fjárhæðir sem um teflir. „Það ber mikið á milli,“ sagði hann einungis um það atriði. „Við nýtum þann tíma sem við þurfum til þess að landa þessu. Þetta tekur tíma.“

Vidar Helgesen, evrópuráðherra Norðmanna, sagði eftir EES-fundinn í síðustu viku að Norðmenn teldu enga ástæðu til að auka framlög sín í sjóðinn á sama tíma og ESB væri að draga úr eigin framlögum.

Engar upplýsingar um gang viðræðnanna eða síðustu þróun í þeim málum er hins vegar að finna á vef utanríkisráðuneytisins. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 13. maí um störf á fundi EES-ráðsins er í engu vikið að þessum samningaviðræðum.

Þar segir:

„Fulltrúi Evrópusambandsins lýsti ánægju sinni með stefnu Noregs og Íslands í málefnum EES. EES samningurinn væri farsæl saga og sú nána samvinna sem í henni fælist væri styrkleiki til framtíðar. Þá hefði ESB kynnt sér nýsamþykkta Evrópustefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og liti hana jákvæðum augum.“

Síðan er eftirfarandi haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra:

Capture

„Fundurinn var árangursríkur, við ræddum um þau tækifæri og þær áskoranir sem unnið er að milli landanna og sambandsins í tengslum við EES samninginn. Það er áríðandi halda uppi og kynna mikilvægi EES samningsins sem hefur reynst farsæll. Við höfum nýtt okkur frelsi hans til að gera fríverslunarsamninga á okkar forsendum og sem EFTA ríki, jafnframt því að vera hluti af innri markaði ESB og eiga möguleika á því að sækja menntun og njóta ferðafrelsis innan sambandsins. Aðildin að EES veitir okkur bæði sérstöðu og frelsi til athafna,“

Aftenposten greinir frá því að í þessum viðræðum sé ennfremur verið að ræða möguleika á auknum markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir.

Þannig að samkvæmt þessari frétt Aftenposten eru bein tengsl milli framlagsins til þróunarsjóðsins sem hefur það að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði í Evrópu og markaðsaðgangi Íslendinga og Norðmanna fyrir sjávarafurðir á innri markaði ESB.

„Það liggja fyrir tillögur um það hvernig hægt væri að vinna úr og þróa tollkvóta á ýmis konar sjávarafurðir,“ segir Leikvoll við Aftenposten. Í því sambandi virðast norska ríkisstjórnin tilbúin að slaka á verndartollum gagnvart innflutningi á ostum og blómum í óþökk þarlendra hagsmunaaðila.

Share Button

Alþingi slitið, ekkert sumarþing, málatilbúnaður ríkisstjórnar að engu orðinn

Share Button

phota4Alþingi hefur verið slitið, sumarþing verður ekki haldið og nýtt þing verður sett þann 9. september. Það felur í sér að allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í tengslum við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu án þess að standa við kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins, er að engu orðinn og ljóst að tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að slíta formlega aðildarviðræðum Íslands og ESB hefur mistekist – í þessari atrennu að minnsta kosti.

Staða málsins er nú hin sama og var áður en tillagan var lögð fram þann 21. febrúar sl. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar slá úr og í þegar spurt er hvort tillagan verði lögð fram aftur á næsta þingi. Strax og tillaga ráðherrans var lögð fram vakti athygli hve illa var á málinu haldið og kallaði allur málatilbúnaður ráðherrans á hörð viðbrögð. Í greinargerð með tillögunni var að finna aðdróttanir í garð þeirra þingmanna, sem samþykkt höfðu aðildarumsóknina, um að þeir hefðu greitt atkvæði gegn samvisku sinni.

Á þessum tíma var skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands nýlega komin fram og umfjöllun um hana á Alþingi og í þjóðfélaginu var rétt að hefjast. Rúmur mánuður var í að Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands lyki við skýrslu sína fyrir aðila vinnumarkaðarins.

Viðbrögð í þjóðfélaginu við tillögu ráðherrans voru hörð, ekki síst meðal fólks sem kosið hafði Sjálfstæðisflokkinn í Alþingiskosningunum síðasta vor vegna afdráttarlausra yfirlýsinga forystumanna flokksins um að ákvörðun um framhald aðildarviðræðna ætti að taka í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki á Alþingi.

Efnt var til undirskriftarsöfnunar á vefsíðunni thjod.is að undirlagi Já Íslands. Strax þann 26. febrúar, um það bil þremur sólarhringum eftir að söfnunin hófst, höfðu meira en 30.000 Íslendingar skrifað þar undir þessa áskorun:

VIÐ UNDIRRITUÐ…
…skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:
Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er stærri og mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða svarinu.

Alþingi ber að sýna þjóðinni þá virðingu að leggja framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins í dóm allra Íslendinga.

Alls urðu undirskriftir á thjod.is 53.555 og var áskorunin afhent forseta Alþingis þann 2. maí.

Eftir að tillagan kom fram voru einnig boðaðir mótmælafundir á Austurvelli til þess að mótmæla vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og svikum á afdráttarlausum kosningalofoforðum um að þjóðin ætti að fá að ráða framhaldi málsins.

Fyrsti fundurinn var haldinn þann 1. mars og áætlaði lögreglan að þar hefðu um átta þúsund manns safnast saman til þess að lýsa andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar. Alls voru átta fundir haldnir og mættu á þá á bilinu 1.500 – 5.000 manns.

Einnig varð atburðarásin í kringum tillögu ríkisstjórnarinnar um slit aðildarviðræðna og svik forystu Sjálfstæðisflokksins á kosningaloforðum til þess að hópur fólks, sem lengi hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og unnið ýmis trúnaðarstörf á vettvangi hans, fór að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks. Sú vinna stendur enn yfir en vinnuheiti flokksins er Viðreisn.

Flest bendir einnig til þess að þessi atburðarás, sem hófst með því að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu sína að kvöldi föstudagsins 21. febrúar, hafi orðið til þess að auka stuðning meðal landsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Könnun sem MMR gerði í aprílmánuði bendir til þess að síðasta árið hafi þeim sem segjast fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið fjölgað úr 33,5% í apríl 2013 í 37,3% í apríl á þessu ári. Þeim sem eru óákveðnir hefur fækkað að sama skapi.

Share Button

ESB nær enn betri árangri við að draga úr kolefnisútblæstri fyrir 2020 en Kyoto-bókun gerði ráð fyrir

Share Button

Flag of European UnionEvrópusambandið mun ná betri árangri en að var stefnt og Kyoto-bókun loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir í því að draga úr kolefnisútblæstri fyrir árið 2020.

Þetta kom fram í skýrslu sem lögð var fyrir fund umhverfisráðherra aðildarríkja ESB í Aþenu í gær.

„Evrópa mun fara fram úr væntingum árið 2020,“ sagði Hans Bruyninckx, framkvæmdastjóri Umhverfismálastofnunar Evrópu, eftir að hafa kynnt ráðherrunum og embættismönnum framkvæmdastjórnar ESB niðurstöður stofnunarinnar.

ESB hefur með einhliða skuldbindingu á grundvelli Kyoto-bókunar Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir að fyrir 2020 eigi ríki sambandsins að draga úr útblæstri um 20% miðað við útblástur ársins 1990.

Markmiðinu hefur þegar að mestu verið náð og talið er ljóst að farið verði talsvert langt fram úr því þegar 2020 rennur upp. „Nú er talið að árið 2020 verði heildarútblástur 24,5% undir viðmiðunarárinu,“ segir í nýlegri skýrslu til Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfissinnar brugðust við fréttum af ráðherrafundinum með því að fagna árangrinum en segja jafnframt að hann leysti ESB ekki undan ábyrgð á því að setja sér enn metnaðarfyllri markmið. „Án markmiða og nýrrar stefnumótunar höfum við enga tryggingu fyrir því að hlutirnir fari ekki í fyrra horf og að útblástur fari að aukast á ný,“ segir Wendel Trio talsmaður fjölþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna CAN Europe.

Ráðherrarnir hittust í Aþenu til að undirbúa framhaldsfund Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í næsta mánuði en þar er ætlunin að aðildarríki Kyoto-bókunarinnar kynni þann árangur sem þau hafa náð í að draga úr útblæstri og vinni jafnframt að því að endurskoða fyrri markmið sín og áætlanir.

Trio segist engar væntingar hafa um að ESB muni fallast á ný markmið á fundinum í júní en hvatti sambandið til þess að vinna áfram að því að setja markið enn hærra og auka þrýsting á þær þjóðir sem bera ábyrgð á mestum útblæstri og hafa dregið lappirnar þegar kemur að aðgerðum til úrbóta.

Bæði vísindamenn og umhverfissinnar horfa mjög til áframhaldandi forystu Evrópusambandsins um að baráttu fyrir þeim aðgerðum sem grípa þarf til vegna loftslagsbreytinga til þess að koma í veg fyrir að hitastig andrúmsloftsins rísi enn um tvær gráður. Það er sú viðmiðun sem vísindanefndir SÞ telja nauðsynlegt að miða við til þess að vinna gegn auknum þurrki, flóðum og hækkun sjávarmáls á næstu áratugum.

Fyrir liggja tillögur framkvæmdastjórnar ESB um að dregið verði úr kolefnisútblæstri um 40% fyrir árið 2030 en aðildarríki ESB eru ekki á einu máli um þau markmið. „Aðildarríkin skiptast í þrjá hópa, sagði Yannis Maniatis, orku- og umhverfisráðherra Grikklands. Sum aðildarríkin styðji tillögur framkmvæmdastjórnarinnar en önnur tregðist við að setja nokkur ný markmið. Þriðji hópurinn vill jafnvel ganga enn lengra en framkvæmdastjórnin.

ESB hefur lýst því yfir að vinnu við að setja ESB markmið í loftslagsmálum fyrir árið 2030 muni ljúka fyrir októberbyrjun.

Sjá frétt Euractiv.

Share Button

Ný könnun: Evrópubúar hafa orðið jákvæðari í garð ESB síðasta árið þótt kreppan sé ekki gleymd

Share Button
PG-2014-05-12-EU-0-03

Taflan, sem er af vef Pew Research, sýnir hvernig viðhorf íbúa sjö ríkja í Evrópu til ESB hafa breyst síðasta árið

Stuðningur við Evrópusambandið virðist vera að aukast rétt áður en gengið til Evrópuþingskosninganna 22. maí samkvæmt nýrri og yfirgripsmikilli skoðanakönnun sem alþjóðlega rannsóknastofnunin Pew Research Center birti í gær og gerð var meðal íbúa sjö af stærstu ríkja Evrópu.

Eftir að mjög dró úr stuðningi við Evrópusambandið í kjölfar evrukreppunnar svokölluðu er stuðningur við Evrópusambandið að aukast í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Og trú almennings á því að efnahagslegur samruni í Evrópu komi sér vel fyrir löndin í álfunni er að aukast í Bretlandi, Póllandi og Þýskalandi.

Kjósendur í Evrópu telja hins vegar að raddir almennings hafi ekki nægilegt væri í Brussel, þar sem stofnanir Evrópusambandsins er að finna. Meirihluti fólks í flestum ríkjunum kvartar undan því að ESB skilji ekki þarfir þeirra, sé óþarflega íhlutunarsamt og ekki nægilega skilvirkt. Og lítill áhugi er á því hjá almenningi að veita ESB frekari völd á sviði efnahagsmála.

PG-2014-05-12-EU-0-05

Trúa enn á hugsjónina um ESB en eru samt pirraðir

En í flestum ríkjunum sem könnunin náði til vantar samt talsvert á það enn að sú einkunn sem ESB fær hjá almenningi sé jafngóð og var áður en kreppan skall á.

Ítalir eru í vaxandi mæli gagnrýnir á stofnanir sambandsins og meðal þeirra eru skiptar skoðanir um hvort áfram eigi að nota evru fyrir gjaldmiðil landsins. Grikkir, sem fóru verst út úr kreppunni, eru enn afar tortryggnir á ýmis atriði Evrópusamstarfsins.

Djúpstæður pólitískur ágreiningur setur mark sitt á baráttuna vegna Evrópuþingskosninganna.

Í Bretlandi, Ítalíu, Póllandi og Þýskalandi eru hægri sinnaðir kjósendur yfirleitt harðari í dómum um ESB en aðrir. Í Grikklandi og á Spáni, eru hörðustu gagnrýnendur sambandsins hins vegar vinstri sinnaðir.

Og áhyggjur af innflytjendamálum auka á óánægju almennings. Meirihluti fólks í Ítalíu, grikklandi, Frakklandi og Bretlandi lýsa vilja til þess að draga úr straumi innflytjenda, meðal annars vegna þess að margir telja að innflytjendur muni ekki aðlagast samfélaginu og að þeir taki störf frá því fólki sem fyrir er og sækist auk þess eftir greiðslum úr velferðarkerfinu.

Þessar niðurstöður eru nokkrar þeirra sem má lesa út úr könnun sem Pew Research Center gerði meðal 7.022 karla og kvenna í sjö aðildarríkjum Evrópusambandsins – Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni og Bretlandi. Könnunin var gerð frá 17. mars til 9. apríl.

Evrukreppan se hófst árið 2008 varð til þess að ímynd ESB varð fyrir miklu áfalli. Frá árinu 2007 til 2013 fækkaði þeim sem höfðu jákvæða skoðun á ESB um 34 prósentustig á Spáni, um 21 prósentustig í Frakklandi og um 20 prósentustig á Ítalíu.

En þessar skoðanir virðast farnar að færast nær fyrra horfi síðasta árið, segir Pew. Miðgildi þeirrar einkunnar sem íbúar landanna sjö gefa ESB hefur hækkað úr 46% Í 52% síðasta árið. Mest er hækkunin í Frakklandi, eða 13 prósentustig. Miðgildi þeirra sem telja að efnahagslegur samruni Evrópuríkja styrki efnahagslífið í heimalandi viðkomandi hefur einnig hækkað úr 26% í 38% og er hækkunin hvað það varðar mest í Bretlandi, eða 15 prósentustig, og næstmest í Póllandi, 12 prósentustig.

Athygli vekur að nú hafa 52% Breta jákvæð viðhorf gagnvart ESB og þeim sem telja að sambandið hafi jákvæð efnahaagsleg áhrif á Bretland hefur fjölgað um 15 prósentustig á einu ári.

Í samræmi við það styðja nú mun fleiri Bretar en áður að landið haldi áfram fullri aðild að Evrópusambandinu. 50% Breta vilja nú halda áfram innan ESB en 41% eru andvígir. Á síðasta ári voru það jafnstórir hópar – 46% í hvorum – sem vildu áframhaldi aðild og úrsögn.

Stuðningur við evruna, hinn sameiginlega gjaldmiðil 17 Evrópuríkja, er mikill í löndunum sjö; afgerandi meirihluti fólks í Þýskalandi (72%), Grikklandi (69%), Spáni (68%) og Frakklandi (64%) vilja halda í evruna sem gjaldmiðil. Eingöngu Ítalir gæla við þá hugmynd að kasta frá sér evrunni en 44% svaenda þar segjast vilja taka upp líruna á ný. Evran er ekki notuð í hinum ríkjunum tveimur sem könnunin náði til, Póllandi og Bretlandi.

En helstu stofnanir Evrópusambandsins njóta ekki sama trausts og sambandið sjálft, efnahagslegi samruninn og evran. Miðgildið er 36% varðandi þann fjölda sem hefur jákvætt álit á Evrópuþinginu. Hvað varðar jákvætt álit á framkvæmdastjórn ESB er miðgildi niðurstaðna úr ríkjunum sjö 34% og Seðlabanki Evrópu er í enn minni metum hjá Evrópubúum því miðgildið hvað hans jákvæðu ímynd varðar er einungis 30%. Pólverjar hafa mestar mætur á Evrópusambandinu sjálfu og öllum stofnunum þess en Grikkir eru gagnrýnastir.

Og meirihluti íbúa í öllum ríkjunum sjö telur að þeir sjálfir hafi lítið að segja innan ESB. Þau viðhorf eru sterkust meðal Ítala (81%) og Grikkja (80%).

Miðgildi yfir hlutfall svarenda í löndunum sjö sem segja að ESB skilji ekki þarfir þeirra er 65% og munar þar mest um 85% svarenda í Grikklandi Greece og 77% á Ítalíu.

Ennfremur segja 63% að ESB sé afskiptsamt og 57% telja að sambandið sé óskilvirkt en þeirrar skoðunar eru meira en 50% í fjórum af löndunum sjö.

En Pew Research Organisation, sem er virt bandarísk rannsóknastofnun, segir að þrátt fyrir þessar efasemdir eigi Evrópuhugsjónin sér enn sterkar rætur í hjörtum Evrópubúa og þau metnaðarfullu markmið sem bjuggu að baki stofnun Efnahagsbandalags Evrópu fyrir meira en hálfri öld eigi sér ennþá mikinn hljómgrunn. Sjö af hverjum tíu (miðgildi niðurstaðna í ríkjunum sjö) telja að Evrópusambandið stuðli að friði í heiminum. 51% telja að ESB sé stórveldi á heimsvísu og eru Frakkar (59%, Grikkir (57%) og Spánverjar (57%) helstu stuðningsmenn þess viðhorfs.

Share Button